Gullna ljósið sigraði
Sigurvegari í ljósmyndasamkeppni Omnis, Canon og Ljósops er Skarphéðinn Þráinsson en hann tók mynd af gamla Garðskagavitanum og ber myndin heitið Gullna ljósið. Var myndin tekin á Canon EOS 5D með Canon EF 16-35mm f/2.8L USM II linsu. Hlýtur Skarphéðinn Canon PIXMA Pro9000 A3+ ljósmynda bleksprautuprentara að verðmæti 84.900 kr.
Alls bárust 52 myndir í keppnina og vilja aðstandendur hennar þakka öllum þátttakendum kærlega fyrir þátttökuna. Margar glæsilegar myndir bárust þó svo að keppnistíminn hafi verið skammur en Skarphéðinn stóð uppi sem sigurvegari að mati dómnefndar eins og áður greinir.
Verðlaunaafhendingin verður laugardaginn 6. september kl. 16:00 í Omnis, Tjarnargötu 7, Reykjanesbæ, og vilja aðstandendur keppninnar hvetja fólk til að fjölmenna á staðinn þar sem skoða má hluta myndinna prentaðar út á A3+ pappír á Canon PIXMA Pro9000 A3+ ljósmynda bleksprautuprentara.
Dómnefnd skipuðu Björn Ingi Pálsson, rekstrarstjóri Omnis Reykjanesbæ, Halldór Jón Garðarsson, vörustjóri Canon neytendabúnaðar hjá Nýherja, og Oddgeir Karlsson, ljósmyndari.
Meðfylgjandi er sigurmyndin.