Gullaldardrengir í lionsskötu
Það voru ansi margir sem borðuðu skötu í gær á Þorláksmessu enda orðinn hefð hjá fjölda fólks. Lionsmenn í Keflavík hafa undanfarin ár boðið upp á skötu í Oddfellowhúsinu og þar mættu á annað hundrað manns í skötu.
Auk skötunnar var boðið upp á vel kæstan vestfirðing sem var eðal tindabyggja, saltfisk og plokkfisk auk ljúffengra eftirrétta. Sannkölluð eðalveisla hjá Lionsmönnum sem nutu liðsinnis Axel Jónssonar og starfsfólks í Skólamat. Meðal þeirra sem mættu voru nokkrir fyrrverandi gullaldarliðsknattspyrnumenn úr Keflavík. Ein þeirra var hinn brottflutti Friðrik Ragnarsson en hann hefur búið í útlöndum, lengst af í Manchester, í aldarfjórðung, en býr nú á Spáni. Það urðu því fagnaðarfundir þegar hann hitti þrjá af gömlu félögunum úr Keflavíkurliðinu, þá Jón Ólaf Jónsson og Magnús Haraldsson og Ástráð Gunnarsson en sem kunnugt er varð Keflavík Íslandsmeistari fjórum sinnum á árunum 1964-1973.
Þarna mættu fleiri í kæsta skötu, þar á meðal fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Ellert Eiríksson og fleira gott fólk. Allir nutu góðra veitinga og héldu í gamla hefð að fá sér skötu á Þorlák.
Páll Ketilsson smellti þessum myndum þegar hann kíkti í Lionsskötuna.
Efsta mynd: Magnús Haraldsson, Friðrik Ragnarsson, Jón Ólafur Jónsson og Ástráður Gunnarsson, fyrrverandi knattspyrnukappar úr gullaldarliði Keflavíkur.
Birgir Sanders, sonur Alberts Sanders heitins, fyrrverandi bæjarstjóra í Njarðvík og Ellert Eiríksson, fyrrverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar fengu sér ljúffenga skötu.
Það voru ekki allir háir í loftinu sem fengu sér skötu.
Hafsteinn Guðnason, einn af forrráðamönnum Lionsklúbbs Keflavíkur við hluta skötuborðsins. Að neðan: Diskur með tilheyrandi skötu og meðlæti a la Þorláksmessa 2011.