Guðnýjarstígur vígður
Í dag var Guðnýjarstígur við Greniteig vígður formlega, en það var fimm ára hnáta, Guðný Hanna sem fór á fund bæjarstjóra í sumar og óskaði eftir því að stígurinn yrði lagaður. Göngustígurinn var mjög ósléttur og höfði Guðný Hanna og aðrir krakkar dottið á stígnum. Á fundi með bæjarstjóra í sumar bað Guðný hann um að hringja strax í vinnumennina til að láta laga stíginn og gerði bæjarstjóri það. Fljótlega eftir þetta var stígurinn lagfærður og hann skýrður í höfuð Guðnýjar. Árni Sigfússon bæjarstjóri komst því miður ekki í vígsluathöfnina, en Guðný Hanna og fleiri krakkar sem stóðu með henni í baráttunni ætluðu að afhenda bæjarstjóra þakkarskjal og rósir. Fyrirtækið Rekan ehf. í Reykjanesbæ sá um hellulagninu göngustígsins og mættu fulltrúar fyrirtækisins, þeir Magnús og Jón Eiríkssynir á vígsluna og buðu krökkunum upp á kók og prins póló. Guðný Hanna sagði í samtali við Víkurfréttir að hún væri mjög ánægð með nýja stíginn og litist bara vel á nafnið. Hún ætlar að fara á skrifstofu bæjarstjóra fljótlega og afhenda honum þakkarskjöldinn sem krakkarnir útbjuggu og rituðu nöfn sín undir.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Vígsluathöfnin fór fram við Guðnýjarstíg og að sjálfsögðu stillti hópurinn sér upp fyrir myndatöku. F.v. Magnús Eiríksson frá Rekan, Hafþór Ingi, Guðný Hanna, Guðrún Eir, Þórey, Katrín, Árni Freyr, Gulli, Kristberg, Andrea, Jóhanna, Ingunn, Eyrún, Marta Hrönn og Jón Eiríksson frá Rekan ehf.