Guðný Kristmanns með leiðsögn í Listasafni Reykjanesbæjar
Laugardaginn 10. desember kl. 14:00 er gestum boðið að njóta leiðsagnar Guðnýjar Kristmanns um sýningu sína Holdtekja í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum og lýkur sýningunni jafnframt þessa helgi.
Guðný sem hefur um árabil búið og starfað á Akureyri, hefur tekið þátt í fjölda listviðburða og vakið athygli fyrir litríka, kröftuga og tilfinningalega hlaðna málaralist. Í fyrra var hún útnefnd til myndlistarmanns Akureyrarbæjar og sýndi af því tilefni málverk sín í Hofi, nýju menningarhúsi bæjarins.
Rætur myndlistar Guðnýjar liggja í landslagstengdri abstraktmyndlist Kristjáns Davíðssonar, súrrealisma og evrópskum og amerískum abstrakt-expressjónisma. Málaralist hennar einkennist af líkamlegum skilningi á sköpunarferlinu, sem hún líkir beinlínis við hina „frumstæðu hvöt að skapa líf", með tilheyrandi nautn, fullnægju og sársauka. Þar leggur Guðný m.a. til grundvallar kenningar Derridas og Nietzsches um tengslin milli sköpunar og kynferðis- og kynferðisathafna. Um leið tekur hún undir hugmyndir tilvistarspekinga um málverkið sem vettvang þar sem listamaðurinn endurskapar sjálfan sig í hverju verki.
Guðný hefur haldið sex einkasýningar og hafa þær allar farið fram á Akureyri. Sýningu hennar í Listasafni Reykjanesbæjar fylgir vönduð sýningarskrá með fjölda mynda og inngangi um listakonuna á íslensku og ensku eftir Aðalstein Ingólfsson.
Allir hjartanlega velkomnir, heitt á könnunni og aðgangur ókeypis.