Atnorth
Atnorth

Mannlíf

Guðný 30 ár í leikhúsinu
Fimmtudagur 17. nóvember 2011 kl. 11:20

Guðný 30 ár í leikhúsinu

Guðný Kristjánsdóttir smitaðist alvarlega af leikhúsbakteríu sem virðist vera ólæknandi. Það eru komin þrjátíu ár síðan Guðný smitaðist og í samtali við Víkurfréttir kom í ljós að hún sér ekki fram á bata. Það kom einnig fram að Guðný er alsæl með bakteríuna, sem hún segir vera bráðsmitandi og allir á heimilinu séu komnir með hana á mis alvarlegu stigi.

Bílakjarninn
Bílakjarninn


Segðu mér frá starfinu hjá Leikfélagi Keflavíkur um þessar mundir. Hvaða verkefni eruð þið að takast á við?
Það er mjög öflugt starf innan Leikfélags Keflavíkur og hefur verið það í fjöldamörg ár enda félagið eitt öflugasta áhugaleikfélag landsins sem setur á svið tvær stórar sýningar á ári auk þess að taka þátt í ýmsum uppákomum og öllum hátíðum á vegum bæjarins. Við erum núna að æfa jólasöngleikinn Jólaævintýri eftir Charles Dickens sem frumsýndur verður í lok nóvember í Frumleikhúsinu. Þarna er á ferðinni frábær jólasaga sem flestir kannast við. Í sýningunni er fólk á öllum aldri, krakkar frá 8 ára og upp í fullorðið fólk. Litrík og skemmtileg sýning með hressum lögum og frábærum leikurum. Þetta er í rauninni frumraun hjá okkur að sýna svona seint á árinu en planið er að sýna verkið á aðventunni og fram yfir jól. Við sóttum um styrk til Menningarráðs Suðurnesja og vorum svo heppin að hljóta styrk. Menningarráð Reykjanesbæjar veitir félaginu einnig styrk árlega en án styrkja væri ekki vegur fyrir leikfélagið að halda úti svo öflugu starfi eins og gert er. Við búum líka það vel að hafa okkar eigið leikhús og erum nú að gera nokkrar breytingar innanhúss, mála og dytta aðeins að ýmsu sem kominn er tími á en leikhúsið var formlega tekið í notkun í október árið 1997.



Nú hefur söngleikjaformið verið nokkuð vinsælt hjá LK á síðustu árum. Er auðvelt að fá fólk til að koma á svið og syngja?
Við höfum verið afar dugleg að setja á svið metnaðarfullar sýningar og margir söngleikir og revíur falla þar undir. Við búum líka svo vel að eiga hæfileikaríkt fólk bæði í leik og söng. Þetta eru líka þau verk sem fólk vill helst koma og sjá. Hingað til hefur ekki verið neitt mál að fá fólk á svið og stundum komast færri að en vilja.


Hvaða fólk er að koma og starfa með leikfélagi?
Allskonar fólk kemur til liðs við leikfélagið. Sumir endast lengi, aðrir staldra stutt við en eina sem þarf er áhugi á að vinna með skemmtilegu fólki í skemmtilegum félagsskap og kannski tími því það fer gríðarlegur tími í leikhúsvinnu og auðvitað er öll vinnan sjálfboðavinna nema vinna leikstjórans. En það eru allir velkomnir til starfa með leikfélaginu og við tökum fólki fagnandi. Okkur vantar einmitt núna fólk í förðun, hárgreiðslu o.fl. stúss.


Hefur verið auðveldara að fá fólk til að starfa í svona félagsskap eftir hrun, þegar fólk hefur meiri tíma aflögu?
Það datt vissulega inn nýtt fólk eftir hrun en hvort það var tengt hruninu eða ekki veit ég ekki.


Er kannski alltaf sami fasti kjarninn í þessu starfi ár eftir ár?
Yfirleitt höfum við fastan kjarna í nokkur ár, sem betur fer, en svo bætist reglulega við nýtt áhugafólk og aðrir detta út í einhvern tíma og koma svo gjarnan aftur til starfa síðar. Það þarf gríðarlegan áhuga og tíma ef maður ætlar að endast í þessu en hjá mér og minni fjölskyldu er þetta orðið svo stór hluti af lífinu að ég sé mig eiginlega ekki hætta neitt á næstunni – maður veit samt aldrei.


Þið óskuðuð nýverið eftir karlleikurum eldri en 40 ára. Hvernig gekk það?
Það gekk ágætlega, alla vega tókst okkur að manna verkið og gaman að segja frá því að nokkur burðarhlutverk þessarar sýningar eru í höndum nýliða sem eru að koma sterkir inn.


Þú sjálf ert með leiklistarbakteríu á alvarlegu stigi og átt 30 ára leiklistarferil að baki. Þú hefur aldrei viljað taka þetta alla leið og stefna á atvinnumennsku?
Mikið rétt, ég er búin að vera með bakteríuna lengi og mér finnst leiklistin ómissandi hluti af lífinu enda hef ég þrifist á henni í 30 ár. Ég hafði aldrei löngun til að fara í leiklistarskólann en hef sótt námskeið bæði hér heima og erlendis. Í gegnum tíðina hef ég kynnst ótrúlega mörgu góðu fólki í leikhúsinu, fólki sem hefur kennt mér margt og í dag á ég marga vini og kunningja sem ég hef kynnst í leiklistinni hjá LK. Ég hef líka verið lánsöm með þá leikstjóra sem ég hef unnið með og flestir þeirra hafa kennt mér mikið af því sem ég nýti mér í dag. Ég get líka aðeins montað mig af því að hafa leikstýrt sýningum eins og söngleiknum Öskubusku sem ég leikstýrði ásamt þeim Gunnheiði og Írisi auk þess sem ég hef sett á svið sýningar í Heiðarskóla. Leikfélag Keflavíkur getur státað sér af því að hafa alið af sér nokkra atvinnuleikara eins og þá Jón Pál Eyjólfsson, Sigurð Eyberg, Friðrik Friðriksson og Davíð Guðbrandsson en þeir voru allir félagar í LK áður en þeir fóru í nám.


Hvert var þitt fyrsta hlutverk?
Mitt fyrsta hlutverk hjá Leikfélagi Keflavíkur var hérakríli í söngleiknum Rauðhettu og úlfinum en þar lék ég og söng. Þetta var ótrúlega skemmtileg upplifun og þarna kynntist ég skemmtilegu fólki sem ég á enn að vinum.


Hver var ástæðan fyrir því að þú ákvaðst að takast á við leiklistina. Hvernig byrjaði þetta allt saman?
Það var stórleikarinn Árni Óla sem fékk mig til að taka þátt í fyrsta sinn. Það vantaði nokkra héra og við fórum fjórar vinkonur saman á æfingu og enduðum í þessu líka frábæra ævintýri. Það var síðan Hulda Ólafsdóttir leikstjóri sem fékk mig til að sjá og skilja að þetta væri eitthvað sem ég ætti að leggja fyrir mig en ég vann með henni í nokkrum sýningum.


Eftirminnilegasta hlutverkið/leikverkið?
Þessi er erfið. Ég hef alltaf verið mjög heppin með hlutverk og fengið að njóta mín á sviði. Söngleikurinn Er tilgangur sem eiginmaðurinn Júlli samdi og sýndur var haustið 1990 er afar eftirminnilegur enda sló hann rækilega í gegn. Þá eru revíurnar allar mjög eftirminnilegar. En ég held að söngleikurinn Grettir standi uppúr sem skemmtilegasta sýningin... Skemmtilegasta og kannski mest krefjandi hlutverkið gæti verið hlutverk mitt í Týndu teskeiðinni.


Leikhúsið er líka orðið að fjölskylduhobbýi. Þú hefur dregið aðra úr fjölskyldunni á svið og í vinnu á bak við tjöldin?
Já þetta er í rauninni bráðsmitandi baktería og eiginlega ekki hægt að stunda þetta áhugamál nema hafa fólkið sitt með. Ég kynntist eiginmanninum í einni uppsetningu í Félagsbíói þar sem hann var að spila undir með hljómsveitinni. Hann hefur stutt mig í þessu og er einn af máttarstólpum félagsins ásamt mér og nokkrum öðrum í dag.Við höfum bæði lengi setið í stjórn LK og unnum ötullega að því að koma Frumleikhúsinu á laggirnar. Það er ekki síst fyrir hans stuðning að maður er í þessu enn þann dag í dag. Dætur okkar tvær hafa báðar tekið þátt í leikritum, unnið í sjoppunni, tekið til o.fl. Og sonurinn unir sér vel í leikhúsinu og á örugglega eftir að stíga á svið seinna. Þá hefur maður notið ómetanlegrar aðstoðar annarra í fjölskyldunni við pössun, saumaskap, tiltekt, undirspil o.fl. Og þá verð ég að nota tækifærið og þakka mömmu og tengdó alveg sérstaklega.


Þú stendur á bak við Gargandi snilld. Segðu aðeins frá því og hvað er verið að gera þar.
Ég hafði lengi haft áhuga á nýta hæfileika mína með börnum og unglingum. Ég hef verið að kenna leiklist í Heiðarskóla mörg undanfarin ár með góðum árangri og langaði að prófa mig áfram með breiðari aldurshópa. Mér fannst vanta eitthvað fyrir þá krakka sem ekki völdu íþróttir og langaði til að vinna með þeim sem höfðu áhuga á leiklist og söng. Það er skemmst frá því að segja að dæmið gekk upp, hundruð barna og unglinga hafa sótt námskeið hjá mér í Gargandi snilld og fá þar útrás fyrir leiklistarbakteríunni, syngja, fara í leiki og síðast en ekki síst fá að fara í stúdíó og taka upp lag. Námskeiðin eru unnin í samstarfi við leikfélagið þar sem ég hef greiðan aðgang að leikhúsinu og öllu sem þar er. Ég mun halda áfram með Gargandi snilld þangað til allir skólar hafa tekið leiklistarkennslu inn sem skyldufag og koma þannig til móts við fjölda nemenda sem hafa áhuga á leiklist. Ég væri líka til í að fara inn í fleiri grunnskóla hér á svæðinu og gefa fleirum kost á að kynnast leikrænni tjáningu.


Þú kynntist líka Fjólu trölla-stelpu fyrir fáum árum og þið hafið verið nánar vinkonur síðan. Hver er þessi Fjóla og hvert er hennar hlutverk?
Ég verð nú að viðurkenna það að Fjóla tröllastelpa er í mestu uppáhaldi hjá mér núna. Hún varð í rauninni til fyrir þremur árum þegar Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi hafði samband við mig þar sem vantaði einhverja leikara til að vera í hellinum hjá skessunni á Skessudögum og lesa fyrir börnin sem kæmu í heimsókn. Hún spurði hvort ég gæti ekki fundið einhverja skemmtilega hugmynd að vinkonu fyrir skessuna og Fjóla varð til... og er enn. Það er ótrúlega skemmtilegt hversu vel börnin hafa tekið henni og nú er á döfinni að setja saman verk fyrir Fjólu tröllastelpu sem vonandi verður tilbúið fljótlega í tilefni þess að 30 ár eru liðin frá því að ég byrjaði í bransanum. Þetta verður svona verk sem hægt er að sýna hvar sem er.


Hvernig horfir þú til framtíðar hjá Leikfélagi Keflavíkur. Er þetta félagsskapur sem á sér bjarta framtíð? Er samkeppnin um fjölbreytta afþreyingu ekki að koma við svona áhugaleikfélög. Videoleigurnar hafa ekki drepið áhugaleikhúsið?
Framtíð Leikfélags Keflavíkur er björt. Við erum að fá inn ungt fólk sem kemur til með að leysa okkur eldra fólkið af hólmi en ég hef verið í stjórn LK meira og minna í 25 ár og kannski kominn tími á mann! Ég hef séð um rekstur Frumleikhússins frá upphafi og það er eitthvað sem ég er einna stoltust af. Á 9 mánuðum breyttu nokkrir félagsmenn húsinu úr skemmtistað í leikhús og unnu dag og nótt í sjálfboðavinnu við að gera langþráðan draum að veruleika. Leikhúsið er mér því afar hugleikið og kannski þess vegna sem ég get ekki ennþá slitið mig frá þessu. Ég hef ekki áhyggjur af samkeppni en það þarf að halda vel utan um hlutina, skipulagið þarf að vera í lagi og mannskapurinn góður, þá gengur allt upp. Við höfum reynt að koma til móts við alla aldurshópa, verið með barna-, unglinga-, og fullorðinsverk í gangi, grín og alvöru svo allir hafa getað fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég hef ekki áhyggjur af videoleigunum en stundum má fólk vera duglegra að koma á sýningarnar okkar. Það er mikil vinna sem liggur að baki hverri sýningu og því svo ómetanlegt þegar fólk gefur sér tíma til þess að koma og sjá.


Suðurnesjarevíurnar hafa ávallt gert mikla lukku. Hvað með framhaldið á þeim?
Það má eiginlega segja að revíurnar hafi haldið okkur á floti allt frá þeirri fyrstu árið 1989. Ómar heitinn Jóhannsson skrifaði fyrstu revíurnar og þær slógu allar í gegn. Í þeirri fyrstu sem sýnd var í Félagsbíói, því frábæra leikhúsi, var hópur af fólki sem kom leikfélaginu aftur á sjónarsviðið eftir smá dvala. Uppselt var á allar sýningar en salurinn tók um 340 manns í sæti. Félagið lifði lengi af afkomu þessarar sýningar og auðvitað var Ómar fenginn til að skrifa fleiri revíur sem eins og áður sagði slógu allar í gegn. Eftir fráfall Ómars fengum við Breiðbandsmenn til að skrifa fyrir okkur tvær revíur ásamt leikfélögum og það fór á sama veg, frábær aðsókn, umdeild atriði, margir fúlir en flestir sælir. Við erum ekki hætt að sýna revíur, það er alveg á hreinu enda alltaf eitthvað sem hægt er að taka fyrir hér á Suðurnesjum. Þetta er það sem fólkið vill sjá, það er bara svo einfalt!

Viðtal og myndir:
Hilmar Bragi Bárðarson