Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Guðni forseti vill skólastarf  á forsendum nemenda
Laugardagur 15. október 2022 kl. 08:08

Guðni forseti vill skólastarf á forsendum nemenda

„Þetta er vissulega ekki á allra vörum, það vill fenna yfir söguna á skemmri tíma en 150 árum, þannig að það er búið að leggjast í grúsk í kirkjubókum og öðru til að viða að sér þessum fróðleiksmolum sem ég var að reyna að kynna hér fyrir gestum,“ segir Eiríkur Hermannsson, fv. skólastjóri Gerðaskóla, sem hefur verið að taka saman sögu Gerðaskóla í 150 ár. Í afmælishátíð skólans síðasta föstudag flutti Eiríkur brot úr sögunni fyrir viðstadda.

Það þykir merkilegt að það hafi í fátækt verið hægt að byggja upp skóla hérna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er stórmerkilegt því peningarnir voru í kaupstöðunum þar sem verslunin var. Hér var ekkert slíkt, þannig að þetta var fyrst og fremst söfnunarfé. Séra Sigurður Brynjólfsson Sívertsen, sóknarprestur, lagði mikið fé í þetta sjálfur og svo kom styrkur frá Thorcillius-sjóði en það kostaði mikinn pening að byggja skóla. Svo urðu að vera skólagjöld en það gátu ekki allir greitt þau. Þá greiddi séra Sigurður sjálfur fyrir nokkra nemendur, ef honum leist þannig á. Þetta segir sína sögu um tíðarandann og ástandið í samfélaginu á þessum árum.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var gestur Gerðaskóla á þessum tímamótum og tók undir með Eiríki.

„Mér finnst það svo sannarlega og sýnir hvað okkur hefur miðað fram á veg. Nú er almenn skólaskylda og öll börn fá notið menntunar en sú var alls ekki raunin fyrir 150 árum. Þetta sýnir stórhug fólks hér að reyna að gera það sem hægt var. Þetta sýnir líka gjafmildi og framsýn manns eins og séra Sigurðar B. Sívertsen að kosta þá til náms sem þóttu afar efnilegir,“ segir Guðni.

Og Bessastaðir koma aðeins inn í þessa sögu.

„Jú, þeir nemendur sem gátu héldu áfram sínu námi og fóru til Bessastaða. Það hefur örugglega þótt afar merkilegt að halda þangað, í einu menntastofnunina að heitið geti á landinu, og afla sér þar menntunar. Það er líka tímanna tákn að það var ekki ætlað öllum og eingöngu drengir sem gátu notið þess. Nú þegar við lítum um öxl getum við fagnað því sem vel var gert á sínum tíma og á að fylla okkur kappi að geta ennþá betur í framtíðinni.“

Vogar fögnuðu um síðustu helgi 150 ára afmæli skólahalds. Það er merkilegt að hér á Suðurnesjum hafi menn verið svona framsýnir.

„Það er vissulega stórmerkilegt að þetta skuli gerast hér á Suðurnesjum. Auðvitað skiptir Thorcillius-sjóðurinn máli. Hann er upprunninn úr Njarðvíkunum. Honum var ætlað að styðja við börn til menntunar. Þessir tveir skólar nutu þess.“

Guðni, ert þú að upplifa í ferðum þínum um landið hvað skólastarf hefur eflst?

„Það má segja það. Maður reynir að gera sér far um það að í heimsóknum að fara í skóla. Maður fyllist bjartsýni og kappi. Krakkarnir eru hressir, kurteisir, öflugir, kraftmiklir. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum skólastarf á forsendum þeirra. Það verða alltaf einhver ungmenni sem finna sig ekki alveg í því sem við getum kallað hefðbundið skólastarf. Þá er það hlutverk okkar og skylda að finna lausnirnar og kappkosta alltaf að láta börnum líða vel í skólanum. Finna lausnir ef leita þarf lausna. Ekki bara hugsa sem svo að ef barni líður ekki vel í skólanum þá sé það vandamál þess, þvert á móti er það vandamál okkar og okkar að leysa það.“

Eiríkur, þú varst hérna skólastjóri í tíu ár. Upplifir þú breytingar á þessum tíma?

„Já, gríðarlegar. Þegar ég tók við skólanum þá gátu nemendur ekki útskrifast héðan með grunnskólapróf. Það var fyrsta skrefið að koma því á. Síðan þurfti að byggja við og það þurfti að einsetja skólann. Það eru gríðarlegar breytingar sem hafa orðið og ég tek undir hvert orð sem forsetinn segir hér um mikilvægi þess að halda utan um hvert einasta barn. Það er okkar hlutverk og ekki hægt að kenna barninu um ef það misstígur sig einhverra hluta vegna. Þar hefur skólinn gríðarlega stóru hlutverki að gegna.“