Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Guðmundur Stefán fékk Lundann
Föstudagur 18. október 2019 kl. 15:01

Guðmundur Stefán fékk Lundann

Kiwanisklúbburinn Keilir hélt sitt árlega Lundakvöld föstudaginn 11. október. Hápunktur kvöldsins var val á Lunda ársins sem var afhentur í átjánda skipti.

Lundinn eru verðlaun til þeirra sem hafa sýnt og framkvæmt óeigingjarnt starf í þágu bæjarbúa.  Með óeigingjörnu starfi er átt við að viðkomandi hafi lagt eitthvað á sig eða staðið fyrir einhverju sem er bæjarbúum eða þjóð til heilla. Verðlaunagripurinn er uppstoppaður lundi á stein ásamt áletraðri plötu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að þessu sinni var Guðmundur Stefán Gunnarsson valinn Lundi ársins. „Guðmundur er frábær fyrirmynd. Hann hefur látið gott af sér leiða fyrir börn í Reykjanesbæ og það á einkar vel við okkur í Kiwanis þar sem einkunnarorð okkar eru börnin fyrst og fremst,“ segir í tilkynningu frá Keilismönnum.

Guðmundur er aðalhvatamaður á bak við öflugt starf júdódeildar í Reykjanesbæ en hann, með hjálp góðra manna, stofnaði júdódeild UMFN árið 2010.

Fyrsti tíminn byrjaði með ellefu börnum í kaffistofu Reykjaneshallarinnar en nú eru 80 iðkendur að æfa júdó í glæsilegu húsnæði við Iðavelli. Nýverið var stofnuð sér deild fyrir stúlkur og eru þær sextán í dag.

Allt frá stofnun deildarinnar hefur Guðmundur ekki þegið nein laun fyrir starf sitt.

Guðmundur er þar með kominn í hóp góðra manna og kvenna sem hafa fengið Lundann í gegnum tíðina en viðurkenningin var fyrst veitt árið 2002, þá fengu þeir Vilhjálmur Þorleifsson og Óskar Ívarsson Lundann. Aðrir handhafar Lundans eru til dæmis: Tómas Knútsson árið 2004, Karen J. Sturlaugsson árið 2008, Hjálmar Árnason árið 2011, Páll Ketilsson árið 2014, Axel Jónsson árið 2017 og í fyrra fékk svo Elenora Rós Georgesdóttir Lundann.

Á myndinni má sjá Pál Antonsson, forseta Keilis, Guðmund Stefán Gunnarsson og Eið Ævarsson, formann Lundanefndar.