Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Guðmundur Haukur Þórðarson, söngvari – 90 ára
Föstudagur 3. apríl 2020 kl. 14:53

Guðmundur Haukur Þórðarson, söngvari – 90 ára

Tenór í Keflavíkurkvartettinum

Guðmundur Haukur Þórðarson fæddist 4. apríl 1930 í Dölunum. Hann hefur búið alla sína tíð á Suðurnesjum, lengst af í Keflavík, þar sem hann stundaði vöruflutninga milli Reykjavíkur og Keflavíkur til margra ára. Hann er giftur Magneu Þorgerði Aðalgeirsdóttir og eiga þau fimm börn og stóran hóp afkomenda. Þau þrá það heitast núna að geta fagnað þessum tímamótum með afkomendum og öðrum ættingjum og vinum, en það verður að bíða fram á sumarið vegna ástandsins í heiminum.

Haukur var einn af stofnendum Karlakórs Keflavíkur, og var hann formaður kórsins í 19 ár. Hann söng mikið einsöng með kórnum og var drifkraftur í starfseminni í 50 ár. Hann var fyrsti tenór í Keflavíkurkvartettinum, sem var vinsæll á árum áður, einkum í óskalagaþáttum útvarps. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á seinni árum hafa þau hjónin notið þess að dvelja í sumarbústað sínum, Hamraborginni, á æskuslóðum Hauks í Dölunum, þar sem þau hafa komið upp hlýlegum og fallegum dvalarstað. Einnig hafa þau notið þess að geta ferðast til sólarlanda með eldri borgurum, en í þeim ferðum hefur Haukur oft glatt landann með söng sínum á kvöldvökum.

Haukur lærði meðal annars söng hjá Maríu Markan og Stefáni Íslandi, og hjá Sigurði Dementz til margra ára, en þau hjónin voru miklir vinir Sigurðar Dementz. Í tilefni 85 ára afmælisins 2015 gaf Haukur út safndisk með lögum, sem hann hefur söngið í gegnum tíðina með Karlakór Keflavíkur og með öðrum kórum sem og Keflavíkurkvartettinum.  Hann söng fyrst einsöng 12 ára gamall í Barnaskólanum  í Keflavík.

Það eru margir vinir og ættingjar sem hefðu viljað geta heimsótt þau hjónin á þessum merkisdegi, og árnað heilla. Vegna aðstæðna í heiminum verður það að bíða um stund.

Afmælisbarnið á yngri árum



Haukur og Magga í sumarbústaðnum í Dölunum.