Guðjón Steinn sló í gegn í Íslandi í dag
- Fylgst með lífsglöðum og skemmtilegum strák í einn dag.
Ungur nemandi í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ, Guðjón Steinn Skúlason, sló í gegn í þættinum Ísland í dag sem sýndur var í gærkvöldi. Þar var Guðjóni Steini fylgt eftir heilan dag; á heimili hans, í strætó, skólasundi, skólatíma, klarinetttíma og tónfræðitíma.
Guðjón Steinn sýndi enga feimni eða vandræðalegheit þrátt fyrir að fréttamaður og tökumaður fylgdu honum hvert fótmál. Tók hann til dæmis bæði dansspor eldsnemma morguns og sýndi taikwondo-hreyfingar fyrir framan skólann sinn. Þá fékk mörg lífsspekin og skemmtilegir frasar frá honum að njóta sín, enda er drengurinn áberandi lífsglaður og skemmtilegur.
Hann segist ekki ætla að eiga stóra fjölskyldu í framtíðinni: „Ég held ég ætli bara að búa einn í framtíðinni. Nema það sé einhver svona sérstök sem ég vil búa með.“ Þegar hann var svo spurður að því hvers vegna það væri svona skemmtilegt að vera hann, stóð ekki á svari: „Mér bara líður vel!“
Eins og fram kemur í byrjun myndbandsins vakti Guðjón Steinn lukku í kvöldfréttum Stöðvar 2 í nóvember á síðasta ári með hnyttnum svörum um árangur sinn á samræmdu prófunum. Því var ákveðið að fylgja honum einn dag.