Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

“Guðinn Brilljantín” – Mynd mánaðarins í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 10. apríl 2003 kl. 09:19

“Guðinn Brilljantín” – Mynd mánaðarins í Reykjanesbæ

Ný mynd mánaðarins hefur verið sett upp í Kjarna, Hafnargötu 57, í Reykjanesbæ. Eins og áður hefur komið fram er hér á ferðinni kynning á myndlistarmönnum í Félagi myndlistarmanna í Reykjanesbæ á vegum Listasafns Reykjanesbæjar. Listamaður aprílmánaðar er Erlingur Jónsson.Erlingur Jónsson er fæddur 30. mars 1930 í Móakoti á Vatnsleysuströnd. Erlingur nam myndlist víða og um skeið var hann m.a. nemandi og seinna aðstoðarmaður myndhöggvarans Sigurjón Ólafssonar. Hann stundaði síðar myndlistarnám í Noregi, nam m.a. við Kennaraháskólann í Telemark og Kennaraháskólann í Notodden. Erlingur kenndi um árabil handmennt og myndlist við Gagnfræðaskóla Keflavíkur (nú Holtaskóla í Reykjanesbæ) og var þá frumkvöðull að stofnun “Baðstofunnar” sem enn er ómetanlegur þáttur í menningarlífi Reykjanesbæjar. Hann hefur síðustu áratugina starfað að list sinni í Noregi og jafnframt verið lektor og síðar prófessor við listaháskóla í Osló.

Erlingur Jónsson er fjölhæfur listamaður og lék hann meðal annars lengi á fiðlu sem hann smíðaði sjálfur. Verk Halldórs Laxness hafa orðið Erlingi óþrjótandi uppspretta hugmynda og verkið sem nú er myndverk mánaðarins, Guðinn Brilljantín, er gott dæmi um það. Erlingur var fyrsti listamaðurinn sem var útnefndur heiðursnafnbótinni Listamaður Keflavíkur og gerði hann af því tilefni listaverkið “Hvorki fugl né fiskur” sem stendur í skrúðgarði Reykjanesbæjar. Höggmyndir Erlings má sjá víða á Íslandi og í Noregi. Erlingur er félagi í landssamtökum norskra myndhöggvara og hefur hann haldið listsýningar víðs vegar í Noregi og á Íslandi.

Verkið heitir “Guðinn Brilljantín”.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024