Guðfaðirinn, Thom Yorke og Walter White
Afþreying Suðurnesjamanna
Tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson er með blæti fyrir því að gera lista yfir þær plötur sem hann hlustar á. Hann er ekki að horfa á neina nýja sjónvarpsþætti þessa dagana, en leitar reglulega í vandaða þætti eins og Breaking Bad, The Wire og Game of Thrones. Að hans mati eru þetta þeir allra bestu sjónvarpsþættir sem gerðir hafa verið. Síðast þegar Valdi gluggaði í bók, þá varð hin sígilda The Godfather, eftir Mario Puzo, fyrir valinu. Kvikmyndin sem gerð var eftir bókinni er í sérstöku uppáhaldi hjá söngvaranum. Valdimar ætti að fá aðra góða plötu í safnið á næstunni, en þá kemur út þriðja breiðskífa hljómsveitarinnar Valdimar, en sú ber nafnið Batnar útsýnið.
Bókin
Síðasta bókin sem ég las var The Godfather eftir Mario Puzo. Bíómyndin er náttúrulega ein af mínum uppáhalds og það var mjög skemmtilegt að lesa þessa bók því það eru alls konar litlir karakterar í myndinni, eins og Johnny Fontane og Luca Brasi, sem maður fær að kynnast miklu betur ef maður les bókina. Svo var ég nýlega að byrja að lesa The God Delusion eftir Richard Dawkins, mjög áhugavert stöff.
Tónlistin
Ég er búinn að vera mjög mikið að hlusta á plötur frá árunum 2010-2014 síðustu vikur. Ég er með eitthvað blæti fyrir því að gera lista og nýjasti listinn er bestu plöturnar frá árunum 2010-2014. Þetta eru artistar eins og Arcade Fire, The National, Kanye West, Beach House, LCD Soundsystem, M83, Kendrick Lamar og fleiri. Ég spái því síðan að nýjasta platan frá átrúnaðargoði mínu, Thom Yorke, muni síðan fá mikla spilun hjá mér næstu daga.
Sjónvarpsþátturinn
Það er eiginlega enginn nýr þáttur að heilla mig það mikið þessa dagana. Ég er búinn að vera að horfa aftur á Breaking Bad, sem eru ásamt The Wire og Game of Thrones bestu þættir sem gerðir hafa verið. Ég er að spá í að tékka næst á Bojack Horseman, hef heyrt góða hluti um þá.