Guðbjörg Glóð og Fylgifiskarnir
Keflvíkingurinn Guðbjörg Glóð Logadóttir fékk hugmynd að stofnun nýrrar sérverslunar með sjávarfang þegar hún vann í fiskverslun í Boston. Góður gangur í tuttugu ár. Sló í gegn með tilbúnum fiskréttum. Erfitt í byrjun og í hruninu. Fiskur ekki lengur bara mánudagsmatur á Íslandi.
Guðbjörg hefur rekið Fylgifiska, sérverslun með sjávarfang, í rúmlega tuttugu og eitt ár. Verslunin er á Nýbýlavegi í Kópavogi en ævintýrið hófst á sínum tíma á Suðurlandsbrautinni í Reykjavík. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því Guðbjörg opnaði verslunina fyrst og margt þróast í aðra átt en upphaflega var stefnt að.
Það vekur strax athygli þegar komið er inn í Fylgifiska að þar er bara góð matarlykt í loftinu en ekki þessi fiskilykt sem hefði mátt búast við. Galdurinn er sá að Fylgifiskar eru ekki þessi hefðbundna fiskbúð og þangað kemur ekki fiskur með slori. Fiskurinn sem kemur inn í eldhúsið hjá Fylgifiskum kemur flakaður í hús og yfirleitt einnig roðlaus. Eini fiskurinn sem kemur með roði er bleiki fiskurinn, lax og silungur.
Útsendarar Víkurfrétta tóku hús á Guðbjörgu Glóð snemma dags þegar unnið var að því að útbúa rétti dagsins. Sjálf var hún að útbúa túnfisksteikur fyrir fiskborð dagsins en allir fiskréttir eru unnir og kryddaðir frá grunni að morgni dags. Það er mikil handavinna á bak við hvern rétt. Allt skorið til í höndum, grænmetið handskorið og allt kryddað frá grunni. „Við styttum okkur aldrei leið og það er það sem við erum að selja,“ segir Guðbjörg.
Fólk vildi prófa eitthvað nýtt
Skömmu áður en Fylgifiskar opna er farið með fiskréttina fram í fiskborðið. Fiskborðið er þriggja metra langt og þar eru að jafnaði tólf til fimmtán fiskréttir og annað eins af meðlæti. „Þegar við byrjuðum héldum við að þetta yrði til helminga ferskur fiskur og tilbúnir fiskréttir. Það gerðist hinsvegar bara strax á fyrsta eða öðrum degi að það keypti enginn ferska fiskinn. Það fóru allir í tilbúnu réttina. Fólk valdi það að kaupa fiskréttina og prófa eitthvað nýtt. Staðan er þannig í dag að ferskur fiskur er að fá lítinn hluta af fiskborðinu. Það vinsælasta fær mesta plássið. Fiskborðið er samt aldrei eins. Það er mikill munur milli mánudaga og föstudaga. Samt eru réttir sem ekki má snerta við eða breyta. Þetta er bara það sem okkur var ætlað að verða,“ segir Guðbjörg.
Nokkrir réttir eru vinsælli en aðrir. Þannig er hnetulangan langvinsælust og enginn annar réttur kemst með tærnar þar sem langan hefur hælana. Sesambleikja fylgir þó fast á hæla löngunnar, sem og pistasíuþorskur og indversk karríýsa. Guðbjörg segir að mikil sölusálfræði liggi í útlitinu á fiskborðinu hjá Fylgifiskum.
Er fólk að minnka kartöfluát með fiskinum?
„Ég hef verið tuttugu ár í matsölu og það hafa alltaf komið inn á hverju einasta ári einhvers konar matar tískubylgjur. Núna er búið að vera í svolítinn tíma að það megi ekki borða kolvetni þannig að kartöflur eru ekki vinsælasta stúlkan á þessum dansleik, byggið er þar af leiðandi þeim mun meira og mjög hollt og í sjálfu sér gaman að hafa það. Það er íslensk framleiðsla en er svolítið bragðlaust sjálft en við kryddum það skemmtilega til að það sé gott meðlæti.
Grænmeti selst núna mjög mikið en ég sjálf hef alltaf aðhyllst hinn gullna meðalveg.
Einu sinni mátti ég ekki að nefna smjör. Núna eru allir vitlausir í smjör. Ég er búinn að taka þetta svo oft og svo mikið. Einu sinni mátti ekki majonesið en nú er það í lagi.
Ég held bara sjó með framleiðsluna hjá okkur og svo selst bara mismikið eftir því hvað er í tísku. Ég held að mín leið, hinn gullni meðalvegur, sé í raun og veru það sem fólk á að hafa í huga, borða bara ekki of mikið. Það er lykilatriðið.“
Fylgifiskar í tvo áratugi
Fylgifiskar hafa verið starfandi í rúma tvo áratugi, opnuðu fyrst fyrir rúmu tuttugu og einu ári á Suðurlandsbrautinni í Reykjavík.
„Við opnuðum á Suðurlandsbraut 10 og vorum þar í ellefu ár. Á þeim tíma opnuðum við litla verslun á Skólavörðustíg og vorum með útibú þar og einnig á Laugavegi. Svo kom hrunið þannig að við lokuðum útibúunum og vorum bara á Suðurlandsbrautinni. Nýbýlavegurinn kom svo til sögunnar, einnig Borgartúnið en nú erum við bara hér á Nýbýlavegi í Kópavogi.“
Um tíma varstu að reka þrjár verslanir. Var það ekki svolítið mikið?
„Okkur fannst það ekki á þeim tímapunkti. Íslenska leiðin er að stækka og allir eigi að vera stórir og afla meira og gera meira. Okkur fannst þetta bara partur af þessu. En núna, tuttugu árum seinna, fékk ég tækifæri af því að stundum er lífið að ýta manni svolítið og ég fæ tækifæri til að loka Borgartúninu, en það stóð ekki til. Ég greip tækifærið sem mér bauðst þegar Krónan vildi fá staðinn sem við vorum á. Okkur bauðst að færa okkur, fara eða vera, þar sem ég var með leigusamning. En ég ákvað að notað tækifærið og vera bara á einum stað og sjá hvernig er að fara aftur í grunninn. Ég hef ekki tekið betri ákvörðun á þessum tuttugu ára ferli, fyrir utan að opna, að vera núna bara á einum stað. Þetta er frábært.“
Vorum að tapa gleðinni
Þú ert að tala um að hafa hætt með verslun í Borgartúni en á þeim tíma varstu líka með verslun hérna í Kópavogi. Var þetta góð ákvörðun?
„Þetta er það besta sem ég hef gert“.
Af hverju?
„Til þess að geta rekið sitt eigið fyrirtæki er svo gott að hafa þetta allt undir einu þaki og vera ekki að deila sér á milli staða. Það gerir þetta svo skemmtilegt aftur. Núna er maður aftur farinn að geta leikið sér í hlutum sem maður var hættur að geta leikið sér í. Þetta verður aftur gaman.
Við vorum alveg búin að finna það að við vorum að tapa gleðinni, það vantaði orðið þetta sem okkur finnst skemmtilegast sem er að vera með góða þjónustu, góðan mat og búa til nýja hluti. Þegar þú ert dreifa þér svona og átt þetta, þá ertu bara á milli. Kraftarnir dreifast og fókusinn er ekki eitt hundrað prósent. Ég gæti ekki hafa gert betur og ég ráðlegg fólki þetta sem stendur í þessum sporum og er með eigin rekstur, því ég held að allt of mörg lítil fyrirtæki, sem eru fjölskyldufyrirtæki, séu seld nákvæmlega út af þessu.Við þurfum ekki alltaf öll að vera stór, Það er bara fínt að sumir séu það en að aðrir séu bara litlir. Það er miklu meira út úr þessu að hafa svona.“
Hvað með rekstrarhliðina?
„Hún er bara léttari. Þú ert kannski að leigja húsnæði, ert að borga vexti og tryggingar. Þú ert að greiða fyrir öryggismál, gluggaþvott og sorphirðu. Svo er það rafmagn, hiti og allt hitt sem enginn sér áður en hann kemur inn í verslunina hjá þér. Síðan er náttúrulega allt viðhaldið og að manna þetta. Þetta er alveg skemmtilegt. En þetta dreifir kröftunum og kostar.“
Finnst þér þetta ennþá skemmtilegt tuttugu árum síðar?
„Í dag, ekki spurning. Þetta er mjög skemmtilegt.“
Þú ert ekkert að hætta?
„Nei, nei, ég er til í næstu tuttugu ár.“
Alin upp í að bera virðingu fyrir fiski
Fyrir tuttugu árum síðan voru Fylgifiskar fyrsta sérverslunin með fiskrétti og heitan mat í hádeginu. Þetta var algjör nýjung á þessum tíma. Og hvernig gekk hún þarna í byrjun?
„Það má segja að hugmyndin hafi fæðst í þessar aðstæður. Ég elst upp við það að foreldrarnir reka fiskvinnslu og alltaf verið að tala um fisk. Ég starfaði svo á Veitingahúsinu við Tjörnina með skóla. Fer svo til Bandaríkjanna að vinna í fiskbúð og kynnist hinni hliðinni á sölu á fiski. Þetta var rosalega flott fiskverslun sem var á allt öðrum mælikvarða heldur en var hér. Ég var tvítug að gera eitthvað skemmtilegt eitt sumar m.a. að vinna í fiskbúð í Boston. Það kviknaði bara eitthvað inni í mér að fara að sjá þetta og saman, með reynslunni frá Veitingarhúsinu við Tjörnina, þá vissi ég hvað ég vildi gera. Ég er alin upp í því að bera virðingu fyrir sjávarútvegi og bera virðingu fyrir fiski en líka alin upp af skólakerfi sem gerði það ekki. Fiskur var stöðugt talaður niður. Þjóðin leit á þetta sem svona mánudagsmat. Síðan ferðaðist ég til útlanda og sá virðinguna sem var borin fyrir fisk í öðrum löndum. Þetta var veislumatur annars staðar en soðinn með kartöflum og dýrafitu hjá okkur. Mig langaði svo að lyfta fiskinum upp því mér fannst hann eiga þá virðingu skilið að þjóðin bæri virðingu fyrir því sem í raun og veru komin út úr fátæktinni. Mér fannst fólk sem vann í fiski stöðugt vera talað niður og mig langaði líka að gera það að merkilegu fólki, því mér hefur alltaf fundist fiskvinnslufólk vera merkilegt. Mér finnst líka skipta máli að aðrir viti það líka.“
Hvernig fæðist svo hugmyndin?
„Það púslast við hana og ég fór í Háskólann á Akureyri, læri sjávarútvegsfræði og alltaf með þessa hugmynd. Ég ætlaði samt ekki alveg endilega að fara að gera þetta. Ég hefði alveg getað gefið einhverjum öðrum hugmyndina en ég er búinn að vinna að henni mjög lengi. Síðan atvikast það bara í röð atvika í mínu lífi að ég hugsa: „Annað hvort geri ég þetta eða einhver annar gerir það.
Ég bara seldi allt sem ég átti og lagði allt í þetta og fór af stað með þessa hugmynd að opna risastóra verslun á Suðurlandsbraut sem öllum fannst glapræði og í raun og veru var ekkert mikið að gera í upphafi en þetta gekk samt.
Var byrjunin hæg?
„Byrjunin var róleg og við hlæjum oft af þessum sölutölum í dag. Það var ekki röð fyrir utan verslunina en samt alltaf nóg. Ég meðvitað var að taka markaðssetninguna á þeim nótum að láta orðið berast.“
Gaman að vera á gamalli kennitölu
Þegar þú horfir á þessi tuttugu ár, hvað stendur upp úr? Hvað hefur þú lært mest á þessum tíma?
„Það er svo margt búið að gerast í umhverfinu. Hrunið var svakalegt. Það er mjög gaman að vera á tuttugu ára gamalli kennitölu, það er ekki sjálfgefið og hafa farið í gegnum svona. Við fórum fjárlítil af stað og þegar handbremsan kom árið 2008 þá kunnum við að gera mikið úr engu. Við kunnum að þrengja að og vinna með ekki neitt. Þetta var ekkert grín. Þetta hafðist og var lærdómsríkt og maður býr að þessu, það er ekki spurning.“
Upplifðir þú breytingu eftir hrunið?
„Salan fór niður um sjötíu prósent samdægurs. Viðskiptin voru þó fljót að fara upp aftur en við náðum aldrei föstudögunum góðum aftur en þeir höfðu verið stórir fyrir hrun. Ég komst svo að því seinna að það var mögulega vegna þess að við fórum að hafa opið á laugardögum. Núna erum við bara með opið fimm daga vikunnar. Þegar við réðumst í þessa breytingu að vera bara á einum stað þá ákváðum við líka að hafa opnunartímann eins og við vildum hafa hann. Samfélagið er orðið svolítið klikkað og matvöruverslanir opnar allan sólarhringinn. Við erum með opið virka daga til kl. 18 nema á mánudögum til kl. 18:30 og svo lokað um helgar. Fólk er að fá topp þjónustu og topp hráefni alla hina dagana.
Hvernig er salan?
„Hún er bara að aukast.“
Þykir vænt um Eyjabyggðina í Keflavík
Guðbjörg Glóð er fædd og uppalin í Keflavík. Logi Þormóðsson sem er látinn og Bjargey Einarsdóttir eru foreldrar hennar. Mótunarár Guðbjargar voru í Eyjabyggðinni í Keflavík og þar hittu útsendarar Víkurfrétta Guðbjörgu næst, á Heimavöllum.
Þú átt æskuminningar við Heimavelli.
„Það er gaman að vera hérna því að þetta hverfi er fimmtíu ára í ár. Hér áttum við heima á Heimavöllum 11 og fluttum hingað 1978. Ég átti fyrsta afmælið, sjö ára, hér og við vorum hérna þangað til á fermingarárinu mínu. Þetta voru mótunarárin mín og mér þykir alveg svakalega vænt um Eyjabyggðina og þetta hverfi. Ég á mjög margar rosalega góðar minningar héðan. Það var svo mikið af krökkum í þessu hverfi. Það voru allir vinir og að leika saman, það var mikið brallað og gert hérna.
Voruð þið í leikjum?
„Að sjálfsögðu. Við fórum mikið í eina krónu og alls konar hérna úti á götu og svo var „teikað“ hérna á veturna. Þá vorum við með tjarnir hérna fyrir ofan sem voru hinum megin við vallargirðinguna, þannig að við fórum bæði yfir og undir girðinguna og svo líka hérna fyrir framan. Það voru trönur hérna fyrir og við vorum að gera alls konar, byggja kofa og leika okkur þar. Svo er móinn hérna líka og eggjatínsla á vorin. Svo voru einnig braggar hér í hverfinu. Þeir höfðu allir nöfn og við lékum okkur þar. Svo var mikið af nýbyggingum og krakkarnir voru að leika sér í þeim. Þetta var rosalega gott hverfi til að alast upp í á þessum tíma. Við vorum svolítið langt í burtu, þetta var bara efsta húsaröðin í bænum og herstöðin hinum megin við girðinguna. Þegar herþoturnar flugu yfir þá nötraði glerið í húsunum. Mamma var með blóm í stofuglugganum og það hristist alltaf og maður þekkti hljóðin.“
Fengu ekki að byggja kvist og yfirgáfu hverfið
Þetta er ekkert nema góðar minningar og skemmtilegar?
„Alveg svakalega og mér hefur alltaf þótt rosalega gott að vera í Keflavík þó svo ég hafi ekki seinna meir búið hér, þá fannst mér gott að alast upp hérna. Við vorum líka svo góðir vinir og höldum ennþá sambandi í dag, þó svo það sé kannski ekki daglegt samband.“
Þegar Guðbjörg flutti með fjölskyldu sinni á Heimavelli var Eyjafólkið mikið að flytja í burtu og ungar fjölskyldur að setjast að í hverfinu. „Einn veturinn snjóaði svo svakalega mikið að við klifruðum upp á þakskeggið og renndum okkur niður á skíðum því snjórinn var alveg upp á þak.
Guðbjörg segir að fjölskyldan hafi ekki viljað flytja frá Heimavöllum. Hins vegar fjölgaði í fjölskyldunni. Logi og Bjargey vildu fá að byggja kvist á húsið en fengu ekki. Það var því ekki um annað að ræða fyrir fjölmenna fjölskyldu en að flytja á aðrar slóðir og fjölskyldan flutti á Háteig.
Þekkti nær alla með nafni
Holtaskóli og unglingsárin, hvernig voru þau hjá Guðbjörgu Glóð?
„Mér fannst mjög gaman að vera hérna en þegar maður fer að skoða þetta eftir á, þá var þetta hálfgerður dýragarður. Þetta var eini skólinn og hérna voru bara unglingar. Það var barnaskóli í Myllubakkaskóla og svo tók Holtaskóli við.
Við vorum stór árgangur. Það voru fimm eða sex stórir bekkir. Ég er var í árgangi 1972 og hér var ég meira og minna alltaf í nemendaráði og tók mikinn þátt í félagsstarfi og setti upp alls konar skemmtanir. Það þurftu allir að skrá sig í billiard, þannig að ég þekkti eiginlega alla með nafni. Ég var félagslega sterk og átti bara mjög góð ár hérna en skil mjög vel hlið þeirra sem áttu erfið ár, því það var enginn skilningur í frávikum í þroska eða einu eða neinu. Þetta var bara hver að bjarga sjálfum sér. Þetta var fyrir tíma allra greininga og óþekkir krakkar voru bara villingar og pabbi minn var einn af þeim.“
Frá Holtaskóla fór Guðbjörg í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en þá segir hún að stakkurinn sem Keflavík hafi sniðið sér hafi verið orðinn of þröngur og hún hafi því sótt í að komast í burtu og hafi viljað meira frelsi og þurft stærra svið.
Eftir nám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri, kynni af rekstri fiskbúðar í Boston í Bandaríkjunum hafi framtíðin legið fyrir. Guðbjörg býr nú í Kópavogi ásamt því að reka Fylgifiska þar.