Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Guðbjörg Glóð er ekki Jónína hans Jóns
Laugardagur 27. febrúar 2021 kl. 07:49

Guðbjörg Glóð er ekki Jónína hans Jóns

Fiskidrottningin á einlægum nótum í hlaðvarpinu Góðar sögur

Keflvíkingurinn Guðbjörg Glóð Logadóttir á stóran þátt í að breyta viðhorfi okkar Íslendinga gagnvart fiski. Á hennar æskuheimili komst lítið annað að þar sem frumkvöðullinn faðir hennar seldi fisk til Ameríku við matarborðið. Hún gekk með hugmyndina um Fylgifiska í maganum í áratug áður en hún lét til skarar skríða. Fisksalinn Guðbjörg var í viðtali hjá hlaðvarpinu Góðar sögur þar sem hún var á einlægum nótum. Hún ræðir þar æskuna í Keflavík og viðskipti auk þess sem hún deilir sögu föður síns sem fékk heilavírus tæplega fimmtugur og varð aldrei samur eftir það.

Fiskurinn sem eitt af systkinunum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hún rifjar upp æskuárin í Keflavík þar sem hún lék sér í fjörunni, móanum, trönum og við gamla bragga. Hún á hlýjar minningar frá æskuárunum. Hún minnist þess að hafa hjólað á miðilsfundi hjá Sálarrannsóknarfélaginu og grúskað mikið í andlegum málefnum sem barn. Foreldrar hennar áttu og ráku fiskverkunina Tros í Sandgerði þegar Guðbjörg var barn. Hún fór svo sem unglingur að vinna þar og kynntist því öllum hliðum fiskvinnslu ung að aldri.

„Fiskurinn var alltaf rosalega stór huti af fjölskyldulífinu. Við höfum stundum talað um fyrirtækið sem eitt af systkinunum. Það var alltaf verið að tala um það og fylgjast með því. Það tók pláss við matarborðið.“

Faðir hennar, Logi Þormóðsson, var frumkvöðull í útflutningi á ferskum fiski með flugi á Bandaríkjamarkað. Guðbjörg segir föður sinn hafa verið mjög líflegan karakter sem smitaði þau systkinin af vinnusemi og virðingu fyrir fiskinum. „Foreldrar mínir voru gríðarlega stolt af því að vinna með fisk. Það var ríkjandi viðhorf að fólk sem vann í fiski væri eitthvað annars flokks, þetta gramdist mér alveg svakalega. Mér var kennt að undirstöðuatvinnugrein Íslendinga væri fiskur.“

Fór ekki til Bandaríkjanna til að taka við peningum

Árið 1992 fer Guðbjörg til Boston þar sem hún fór að vinna í fiskbúð hjá viðskiptafélaga föður hennar. Hún fór algjörlega á eigin forsendum og vann eitt sumar. „Þegar ég svo kem út þá er algjör kynjaskipting í búðinni. Mér var bara plantað á kassa. Á ég að vera hér? Ekki séns! Ég var þrjá daga á kassanum og þá fékk ég að afgreiða fisk með strákunum, ég held að ég hafi verið fyrsta konan sem vann þeim megin við borðið.“

Þessi dvöl varð svo kveikjan að Fylgifiskum seinna meir. Guðbjörg fór síðar að nema sjávarútvegsfræði á Akureyri þar sem þessi hugmynd fylgdi henni í mörgum verkefnum. „Ég vil gera störf þeirra sem hafa unnið í fiski á undan okkur merkileg. Mér finnst það svo mikilvægt. Ég man þegar ég var lítil og sá konunar koma labbandi úr frystihúsinu bognar og brotnar. Það var búið að setja fólk svo mikið niður fyrir að vera þarna. Þetta var ekkert spennandi. Þetta er óður til þessa fólks sem er búið að vinna baki brotnu í gegnum aldirnar.“

Þegar Guðbjörg fór svo að ferðast meira sá hún að annars staðar var viðhorfið jákvæðara og betra gangvart fiski. Árið 2002 stofnaði hún svo Fylgifiska sem var mikil bylting á þeim tíma. „Ef ég geri þetta ekki núna þá gerir þetta bara einhver annar,“ rifjar Guðbjörg upp. Ferlið var mikið ævintýri og erfitt að fjármagna verslunina til að byrja með.  „Ég fann kraftinn undir mér. Mér fannst ég standa á brimbretti og stór alda væri undir mér. Ef það komu hindranir þá leystust þær bara einhvern veginn.“ Enn þann daginn í dag stendur Guðbjörg vaktina og elskar vinnuna sína. Hún þakkar fyrir það að vinna ekki á skrifstofu þegar hún stendur og sker niður ferskar kryddjurtir á hverjum degi.

Veikindin sem breyttu öllu

Í viðtalinu talar hún á opinskáan hátt um föður sinn sem varð annar maður eftir að hafa fengið heilavírus. „Við áttum ofsalega náið samband. Hann hvatti mig gríðarlega og kom því til skila að ég gæti hvað sem er,“ segir Guðbjörg. Eftir veikindi hans árið 2000 breytist mikið í lífi fjölskyldunnar. „Hann kom aldrei almennilega til baka. Við fengum bara skugga af honum en líka annan mann. Maður þurfti að kynnast honum upp á nýtt en hann varð eiginlega maðurinn sem hann þoldi ekki,“ en Guðbjörg segir það hafa verið sársaukafullt fyrir fjölskylduna að horfa upp á þennan sterka mann glíma við þessi veikindi. „Þetta kennir manni samt svo margt. Þetta getur komið fyrir hvern sem er og þú veist aldrei hvert lífið tekur þig næst.“

„Ég man þegar ég var lítil og sá konunar koma labbandi úr frystihúsinu bognar og brotnar. Það var búið að setja fólk svo mikið niður fyrir að vera þarna. Þetta var ekkert spennandi. Þetta er óður til þessa fólks sem er búið að vinna baki brotnu í gegnum aldirnar ...“

Hugleiðir og hreyfir sig daglega

Guðbjörg ræðir einnig breytingar á lífstíl sínum en hún var ekki vön að hreyfa sig og var að vinna mikið. „Ég fann bara að ég var að deyja, það var voðalega lítið líf eftir á mælinum. Gleðin var eiginlega að hverfa,“ en Guðbjörg beitti bæði hugleiðslu og hreyfingu til þess að koma sér á beinu brautina. Með hreyfingunni fór hún hins vegar að leyfa sér meira í mataræðinu. „Ég hélt sko ekki að ég væri fíkill á sælgæti en ég komst að öðru. Ég hefði ekki trúað því hvað var erfitt hætta að nasla á kvöldin. Í heila 45 daga var þetta hrikalega erfitt og eins og versta detox. Stundum var þetta eins og atriði í myndinni Trainspotting.“

Guðbjörg ræðir líka hörkuna og mýktina í sjálfri sér sem stundum takast á „Ég fæddist rosalega lítil, krullhærð, með blá augu. Ekki það fyrsta sem þér dettur í hug þegar þú hugsar um hörkutól. Ég var svo staðráðin í því að ég skyldi ekki láta neitt stoppa mig. Það var lag sem hét „Ég er maðurinn hennar Jónínu hans Jóns,“ það sat mjög í mér. Ég ætlaði sko ekki að vera konan hans Jóa eða Geira eða hver sem það er, ég ætlaði sko að vera ég.“

Viðtalið má nálgast á öllum helstu hlaðvarpsveitum og á vefsíðunni Reykjanes.is

„Eftir veikindi hans árið 2000 breytist mikið í lífi fjölskyldunnar. „Hann kom aldrei almennilega til baka. Við fengum bara skugga af honum en líka annan mann. Maður þurfti að kynnast honum upp á nýtt en hann varð eiginlega maðurinn sem hann þoldi ekki.“