Guðbergur Bergsson er látinn
Rithöfundurinn og þýðandinn Guðbergur Bergsson, heiðursborgari Grindavíkur, er látinn eftir skammvinn veikindi.
Guðbergur var níræður að aldri en hann fæddist í Ísólfsskála í Grindavík 16. október 1932. Árið 1936 flutti Guðbergur með foreldrum sínum frá Ísólfsskála í Þórkötlustaðarhverfið í Grindavík. Þar fékk hann hefðbundið uppeldi í leik, námi og vinnu. Guðbergur lauk tveggja vetra námi í héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði og að því loknu fór hann í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi.
Guðbergur var sæmdur titlinum heiðursborgari Grindavíkur á þrjátíu ára kaupstaðarafmæli sveitarfélagsins árið 2004 og þá hlaut hann ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín í gegnum árin, svo sem Silfurhestinn, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Íslensku fálkaorðuna og Bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar. Þá var bók hans Tómas Jónsson, metsölubók tilnefnd til bandarísku bókmenntaverðlaunanna Best Translated Book Awards árið 2017 í flokki skáldsagna en hún hafði verið gefin út á Íslandi rúmlega hálfri öld fyrr. Þá hefur hún oft verið nefnd fyrsta íslenska nútímaskáldsagan og er hún talin hafa markað straumhvörf í bókmenntasögu landsins.
Guðbergur lést á heimili sínu í Mosfellsbæ í faðmi fjölskyldu sinnar mánudagskvöldið 4. september.