Grunnskólanemar lærðu stuðningsmannalagið
Bergur Ingólfsson leikari heimsótti Grunnskóla Grindavíkur fyrir helgi til þess að kynna nemendum nýtt stuðningsmannalag UMFG sem heitir einfaldlega „Ég held með Grindavík“. Bergur er höfundur lags og texta. Hann fékk til liðs við sig leikmenn í meistaraflokki karla og kvenna til þess að syngja með sér lagið á sal skólans.
Bergur fór á kostum og fékk nokkra nemendur á gítar og slagverk til þess að aðstoða sig. Lagið er einfalt og grípandi og tóku nemendurnir vel undir í viðlaginu. Þá spilaði Bergur lagið fyrir yngstu nemendurna og ætlaði þakið að rifna af skólanum þegar krakkarnir öskruðu Ég held með Grindavík.
Fyrsti heimaleikur Grindavíkur hjá körlunum er í kvöld, fimmtudagskvöld gegn KR kl. 19:15.