Grunnskólanemar kynntu sér möguleg framtíðarstörf
Árleg starfsgreinakynning fór fram í gær.
Stelpur höfðu töluverðan áhuga á „strákastörfum“ og strákar kynntu sér fatahönnun á árlegri starfsgreinakynningu sem haldin var í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ í gær. Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar, ásamt náms- og starfsráðgjöfum, stóðu fyrir kynningunni er liður í Sóknaráætlun Suðurnesja á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og voru um 60 manns sem kynntu þar störf sín. Nemendur fengu tækifæri til þess að fræðast um hina ýmsu starfsvettvanga með því að ganga á milli bása og spyrja spurninga.
Markmiðið með starfskynningunni er að efla starfsfræðslu fyrir elstu bekki grunnskóla, stuðla að aukinni starfsvitund og skýrri framtíðarsýn, meðal annars vegna þess að hlutfall þeirra 10. bekkinga sem halda áfram námi að loknum grunnskóla er lægra á Suðurnesjum en annars staðar á landinu. Starfskynningin er liður í átaksverkefni til eflingar menntunar á Suðurnesjum.
Víkurfréttir voru á staðnum og tóku meðfylgjandi myndir.
VF/Olga Björt