Grunnskólabörnum í Grindavík líður almennt vel
Skv. könnun hjá nemendum 8.-10. bekk á landsvísu.
Jákvæð líðan er meðal nemenda í 8.-10. bekk í Grunnskóla Grindavíkur, sérstaklega hjá stúlkum, miðað við landsmeðaltal. Um 4% stúlkna í 9. og 10. bekk segja það oft eða nær alltaf eiga við sig að líða illa í skólanum borið saman við 10% á landsvísu. Hefur þessi tala lækkað í Grindavík um 10% á síðan 2009 sem eru afar ánægjulegar niðurstöður. Hjá strákunum er 9% sem líður illa í skólanum og hefur lækkað úr 11% frá 2009 sem er jákvæð þróun.
Þessar niðurstöður eru úr rannsókn sem Rannsóknir og greining ehf. gerðu í febrúarmánuði. Spurt var m.a. um neyslu ungmenna á tóbaki, áfengi og ólöglegum vímuefnum, tölvuleikjanotkun, íþróttaiðkun og líðan í skóla, svo eitthvað sé nefnt. Rétt er að taka fram að frekar fáir nemendur eru á bak við hverja prósentutölu.
Landsmeðaltalið í dag er 8%. Ár hvert er lögð fyrir könnun hjá nemendum 8.-10. bekk grunnskólanna á landsvísu þar sem lagðar eru fyrir spurningar um hagi og líðan nemendanna. Margt jákvætt kemur fram í nýjustu könnuninni um hagi og líðan ungmenna í Grindavík en þar ber hæst bætt líðan þeirra í skólanum.
Af öðrum niðurstöðum má nefna að samvera foreldra og unglinga í Grindavík er mikil og vel er fylgst með ungmennunum utan skólatíma. Árgangur 1999 sem var í 9. bekk í vetur kemur sérstaklega vel út úr þessari könnun því þar mælist engin neysla áfengis, ólöglegra vímuefna eða reykingar. Árgangur 2000 kemur einnig mjög vel út en árgangur 1998 er hins vegar rétt yfir landsmeðaltali. Þar var aftur á mót lág svörun í könnuninni en árgangurinn kemur heilt yfir vel út en fáir einstaklingar í vanda með reykingar og neyslu.
Íþróttaiðkun ungmenna í Grindavík er mjög mikil eins og áður og reyndar æfa grindvískar stelpur miklu meira en jafnaldrar þeirra á landsvísu. Þá er þátttaka í tómstundastarfi hjá grindvískum ungmennum nokkuð yfir landsmeðaltali sem er mjög jákvætt.
Ýmsu þarf hins vegar að huga að eins og námsleiða og útivistartíma drengja ásamt munntóbaksnotkun sem kemur ekki nógu vel út í könnuninni.
Sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs hefur kynnt rannsóknina fyrir frístunda- og menningarnefnd, forvarnarteymi bæjarins og skólastjórnendum. Í haust verður hún kynnt m.a. fyrir foreldrum og starfsfólki grunnskólans.