Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Grunnskóla Sandgerðis slitið
Þriðjudagur 6. júní 2006 kl. 21:30

Grunnskóla Sandgerðis slitið

Grunnskólanum í Sandgerði var formlega slitið föstudaginn 2. júní sl. Nemendur hlýddu á ræðu skólastjóra á sal skólans, nemendur tónlistarskóla tóku við vitnisburði sínum og foreldrafélagið veitti viðurkenningar fyrir háttvísi og prúðmennsku. Að því loknu héldu nemendur ásamt umsjónarkennurum sínum og stuðningsfulltrúum í sínar heimastofur þar sem þeir tóku við vitnisburði og áttu kveðjustund.

Skólastjórinn, Pétur Brynjarsson, sagði frá því að í skólanum voru um 260 nemendur í vetur og við skólann störfuðu 52 starfsmenn. Hann sagði skólastarfið í heild sinni hafa gengið vel, þakkaði nemendum, starfsfólki og foreldrum fyrir samstarfið og kvaddi sérstaklega fráfarandi kennara, þær Önnu Hjaltadóttur og Fríðu Stefánsdóttur og óskaði þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Skólastjóri minntist Péturs Snæs Péturssonar, félaga okkar og vinar, sem lést 17. maí sl. Hann bað alla um að minnast hans á þann hátt sem við væntum að hann hefði sjálfur kosið.  Hann var ávallt kátur og lífsglaður, fullur af fjöri og lífsorku. Hann minntist á orð Séra Lilju Kristínar Þorsteinsdóttur um að suma hluti skildum við ekki og okkur væri ekki ætlað að skilja þá.
Pétur hvatti nemendur til að nýta tíma sinn á grunnskólaárunum vel, mennta sig og búa sig undir lífið og sagði aðalatriðið vera að hver og einn gerði sitt allra besta.

Mikil áhersla hefur verið á að nemendur komi fram af kurteisi og séu hlýðnir í skólanum. Þess vegna var þeirri hugmynd foreldrafélagsins sérstaklega vel tekið þegar það óskaði þess að fá tækifæri til að verðlauna nemendur fyrir háttvísi og prúðmennsku. Eftirtaldir nemendur hlutu verðlaun foreldrafélagsins: 1.G.A. Sandra Dís Arnarsdóttir, 2.H.V.  Sebastian Hubert Klusowski, 3.E.B. Davíð Smári Árnason, 4.E.G. Birta Rós Ágústsdóttir, 5.U.G.K. Kristinn Snær Bjarnason,  6.L.G. Harpa Birgisdóttir, 6.B.J.S.  Telma Lind Sævardóttir, 7.Þ.B.  Helgi Marteinn Ármannsson, 7.E.Y. Ástrós Anna Vilhjálmsdóttir, 8.E.S.G. Thelma Dís Eggertsdóttir, 8.B.M. Herdís Ósk Ásgeirsdóttir, 9.R.L.G. Magnús Örn Hlöðversson, 9.Þ.B.T.  Elva Kristín Sævarsdóttir, 10.K.J.J. Magnea Rún Vignisdóttir.

Landsbankinn hefur á undanförnum árum veitt verðlaun þeim nemanda sem stendur sig best í tölvufræðslu, áður vélritun, þau verðlaun hlaut Andri Þór Ólafsson 9. ÞBT.  Kvenfélagið Hvöt veitir einnig verðlaun, þau eru fyrir framfarir í lestri, þau verðlaun hlaut Georg Vopni í 4. EG. Þá hlaut Helgi Marteinn Ármannsson sérstök verðlaun fyrir framfarir á skólaárinu.

Að lokum óskaði skólastjóri öllum viðstöddum ánægjulegs sumarleyfis og þess að allir mæti hressir og kátir til starfa á ný, þriðjudaginn 22. ágúst. Við svo búið sleit Pétur skólanum fyrir skólaárið 2005-2006.

Frá þessu er greint á vef skólans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024