Grindvíska atvinnuleikhúsið fær 7,5 milljón króna styrk
Grindvíska atvinnuleikhúsið, eða GRAL áhugafélag um leiklist, hlaut í vikunni 7,5 milljóna króna styrk frá mennta- og menningarmálaráðherra til uppsetningar á leikritinu Íslendingasögurnar 30/90/30. Stofnendur Grindvíska atvinnuleikhússins eru Grindvíkingarnir Bergur Þór Ingólfsson leikari og leikstjóri og Víðir Guðmundsson, leikari. Með GRAL leikur einnig Grindvíkingurinn Benedikt Gröndal. Þá hefur Guðmundur Brynjólfsson frá Hellum á Vatnsleysuströng skrifað nokkur þeirra verka sem GRAL hefur sett upp.
Upphaf GRAL má rekja til þess þegar Bergur Þór og Víðir störfuðu saman sem leikarar við Borgarleikhúsið. Á milli æfinga og í kaffipásum grínuðust þeir með að stofna Grindvíska atvinnuleikhúsið þar sem þeir voru nú einu atvinnuleikararnir sem Grindavíkurbær hafði alið af sér. En öllu gríni fylgir einhver alvara og veturinn 2008 fengu þeir Guðmund Brynjólfsson og Evu Völu Guðjónsdóttur til liðs við sig og settu upp einleikinn 21 manns saknað. Síðan þá hafa fleiri sýningar GRAL hópsins farið á fjalirnar og stöðugt bætist í hópinn af hæfileikaríkum listamönnum sem þó eiga ekki allir ættir að rekja til Grindavíkur.
Frá uppsetningu GRAL á leikritinu Endalok alheimsins árið 2011.