Grindvíkingur ársins heiðraður
– á þrettándagleðinni í íþróttahúsi Grindavíkur
Alexander Birgir Björnsson og fjölskylda voru valin Grindvíkingur ársins 2014, eins og greint hefur verið frá. Hinn 13 ára gamli Alexander Birgir var hugmyndasmiðurinn á bakvið stórkostlega tónleika sem haldnir voru í Grindavíkurkirkju í nóvember. Eins og venjan er var Grindvíkungur ársins svo heiðraður á þrettándagleðinni en Róbert Ragnarsson bæjarstjóri sá um það. Greint er frá þessu á vef Grindavíkurbæjar.
Alexander Birgir skipulagði tónleikana sem voru til styrktar Einhverfusamtökunum og Birtu - landssamtökum foreldra barna/ungmenna sem látist hafa fyrirvaralaust. Boðið var uppá þriggja tíma dagskrá þar sem landsþekktir tónlistarmenn léku fyrir troðfullu húsi.
Fjöldi tilnefninga bárust um Grindvíking ársins og voru þær nánast allar á einn veg. Sérstök valnefnd fer yfir tilnefningarnar og var hún á einu máli að Alexander Birgir og fjölskylda hans ættu það fyllilega skilið að vera valinn Grindvíkingur ársins 2014. Fjölskylda hans stóð vel að baki honum og á stóran þátt í því að láta þennan draum Alexanders verða að veruleika.