Grindvíkingar baka kærleikskleinur
Við sögðum ykkur á dögunum frá Jóhönnu Ósk Gunnarsdóttur, einstæðri móður í Sandgerði, sem tók sig til og bakaði 180 bananabrauð fyrir Fjölskylduhjálp Íslands. Framlag Jóhönnu hefur vakið mikla athygli og virðist ætla að verða mörgum öðrum til eftirbreytni til að láta gott af sér leiða. Það er nefnlega svo að enginn getur allt en allir geta eitthvað.
Frá Grindavík berast þær fréttir að Fanný Laustsen, starfsmaður í sundlauginni, sé að undirbúa kleinubakstur með þátttöku bæjarbúa. Ákveðið hefur verið að baka 2600 kærleikskleinur næstkomandi þriðjudag og geta allir bæjarbúar lagt sitt af mörkum með því að skrá sig á bökunarvakt eða að láta eitthvað af hendi rakna.
Birna Óladóttir, íbúi í Grindavík, hafi boðist til að leggja bílskúrinn sinn undir baksturinn en þar fyrir góð aðstaða fyrir þetta verkefni.
Í sundlauginni liggja nú listar þar sem bæjarbúar geta komið og skráð sig á 2ja tíma kleinuvakt næsta þriðjudag og kostar hver vakt 1.000 kr. sem fer í hráefniskostnað. Jafnframt er hægt að skrá frjáls framlög til kleinubakstursins en þetta verða sannkallaðar kærleikskleinur. Fanný segist í samtali við heimasíðu bæjarins hafa fengið feykilega góðar viðtölur og vonast til þess að sem flestir geti lagt þessu góða málefni lið á einn eða annan hátt.