Grindvíkingar að missa sig í húsaskreytingum
„Það er Majorkaveður hér í Grindavík og Sjóarinn síkáti farinn af stað. Grindvíkingar eru gjörsamlega að missa sig í húsaskreytingum en sem fyrr er bænum skipt upp í fjögur litahverfi og bæjarbúar að skreyta á fullum. Forsetaframbjóðendur litu hérna við í dag og leikskólakrakkarnir hengdu upp listaverkin sín upp við Víkurbrautina og fólk er byrjað að streyma á tjaldsvæðið,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Grindavíkurbæjar.
Sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti í Grindavík stendur til sunnudagskvölds með pompi og pragt. Dagskráin hófst í dag en tónlistin verður í aðalhlutverki í kvöld. Þar má nefna tónleika með Ragga Bjarna á Salthúsinu, Hjálmum á Kantinum, blúsbandinu Síðasti séns á Bryggjunni. Dagskráin heldur svo áfram alla helgina en hægt er að kynna sér hana á www.sjoarinnsikati.is en mikið er lagt upp úr vandaðri barnadagskrá.
Myndir: Þorsteinn Gunnarsson