Grindavíkursvæðið fallegt myndefni
Áhugaljósmyndarar fanga rétta augnablikið.
Í menningarvikunni í Grindavík sem lauk í vor var ljósmyndasýning fjögurra Grindvíkinga á kaffihúsinu Bryggjunni undir yfirskriftinni Okkar fallega Grindavík. Þar sýndu Haraldur Hjálmarsson, Eyjólfur Vilbergsson, Arnfinnur Antonsson og Valgerður Valmundsdóttir áhugaljósmyndarar ljósmyndir frá Grindavík sem teknar hafa verið undanfarin misseri. Myndirnar eru á striga og eru viðfangsefnin margvísleg eins og náttúran, mannlífið, dýralífið, bryggjan o.fl. Fjórmenningarnir eiga allir sameiginlegt að hafa haft ljósmyndun sem ástríðu undanfarin ár.
Fékk fyrstu vélina fyrir 30 árum
Við litum við hjá einum þeirra, Haraldi, en hann hefur búið í Grindavík frá sex ára aldri og keypti sína fyrstu myndavél fyrir 30 árum í Englandi. „Ég á hana ennþá og hef spáð í að setja í hana filmu en það er þægilegra og ódýrara að nota stafrænar vélar,“ segir Haraldur, sem hefur mestan áhuga á að taka náttúrumyndir. „Ég fer þangað sem fólk fer ekki mikið og tek myndir. Klifra jafnvel niður berg niður í fjöru og næ myndum sem sýna annað sýnishorn en í almannaleið.“
Þvælist um allt til að ná myndum
Haraldur hefur ferðast víða um land til að taka myndir. „Ég hef farið á flesta staði á landinu, þvælst hingað og þangað til að ná myndefni. Hef kannski lagt af stað að kvöldi til og komið heim að morgni þegar aðrir eru að fara til vinnu,“ segir Haraldur, sem ók til dæmis að Jökulsárlóni og til baka í einum rykk til að ná góðum myndum. Hann segir einn tíma sólarhringsins ekki skipta máli í slíku samhengi.
Alltaf með myndavél á sjónum
Spurður um hvort hann fái góðan tíma og svigrúm til að sinna þessu áhugamáli segist Haraldur vera sjómaður sem geti oft leikið sér þegar aðrir eru að vinna. „Ég tek reyndar alltaf myndavél með mér á sjóinn. Fyrir nokkrum árum fengum við skútu í trollið og ég hafði ekki nennt að taka vélina með en síðan hef ég alltaf tekið hana með. Hún er alltaf við hendina. Maður hefur kannski náð öðruvísi myndefni frá sjónum sem aðrir sjá ekki. Td. hafís og borgarísjaka.“
Einn í heiminum
Það sem er svo heillandi við náttúruna segir Haraldur vera tilfinninguna að vera einn í heiminum. „Þó að maður fari ekki nema fimm mínútur út úr bænum. Ég hitti eitt sinn Bandaríkjamann á fallegum vetrardegi sem var við innsiglinguna að taka myndir og ég benti honum á að fara út í Hópsnes. Skömmu síðar ók ég sjálfur á eftir honum og hitti hann þar og hann sagði þetta besta dag í lífi sínu.“
Er að þessu fyrir mig
Haraldur segir einnig gefandi og um leið spennandi að sjá hvað kemur út eftir ljósmyndaferðirnar. Hann vinnur myndirnar ekki mikið á eftir. „Ég hef bara fiktað sjálfur og ef mér finnst það flott þá læt ég það duga. Ég er að þessu fyrir mig og ef aðrir hafa gaman af því líka, þá er það bara fínt. Bestu hrósin eru þegar einhver stoppar mann úti í búð til að segja manni hversu flottar myndirnar eru.“ Haraldur var með fimm myndir á samsýningunni og gaf þrjár þeirra að sýningu lokinni. „Ég er ekkert að þessu endilega til að selja verkin. Ég hef líka gaman af því að taka mannlífsmyndir. Slíkar myndir eru svo dýrmætar fyrir bæinn. Ég verð eitthvað í þessu áfram. Ég á fleiri áhugamál,“ segir Hallgrímur að lokum.
Myndir frá sýningunni: