Grindavíkursamfélag í Stefnisvogi í Reykjavík
Jóhann Þór Ólafsson kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu. Aðalatriðið sé að Grindvíkingar geti komið saman, stutt liðin sín og fagnað sigri eða verið fúlir yfir tapi.
„Ég hef aldrei áður búið í blokk svo þetta er ný reynsla fyrir mig,“ segir Jóhann Þór Ólafsson, Grindvíkingur sem er sestur að í Stefnisvogi í Reykjavík. Meirihlutinn af 55 íbúðum er leigður af Grindvíkingum svo segja má að lítið Grindavíkursamfélag sé búið að myndast í Stefnisvoginum.
Jóhann og sambýliskona hans, Sif Rós Ragnarsdóttir, eru bæði á kafi í hestamennsku og eiga hund. Blessunarlega var reglum í Stefnisvoginum breytt svo gæludýr er leyfð en þau hyggjast nýta sér úrræði ríkisins og selja eign sína í Grindavík og kaupa á nýjum stað. Hvernig verða reglur þess húsfélags varðandi dýrahald? Það er dýrara að vera með hesta í Reykjavík en í Grindavík svo það er ótal margt sem þarf að huga að varðandi næstu skref.
Jóhann er líklega þekktastur sem körfuknattleiksþjálfari en hann þjálfar lið Grindvíkinga sem er til alls líklegt í vetur og er eitt margra liða sem ætlar sér þann stóra í vor.
Sif, sem vinnur hjá Tegra í Kópavogi, var stödd í sinni vinnu föstudaginn örlagaríka 10. nóvember þegar allt lék á reiðiskjálfi í Grindavík en Jóhann var nýkominn heim úr sinni vinnu hjá Eimskip. „Ég var kominn heim um fjögurleytið, ætlaði að leggja mig því ég var orðinn frekar dasaður eftir svefnlitlar nætur á undan vegna skjálftanna. Það var ekki séns að ná kríu því maður taldi frekar mínúturnar á milli skjálftanna en hversu lengi hver skjálfti var í gangi, þetta var á allt öðru stigi en ég hafði áður upplifað. Sif hringdi svo í mig og einfaldlega skipaði mér að koma til Reykjavíkur og við myndum gista hjá tengdó þessa nótt, við ætluðum svo bara að snúa til baka daginn eftir eins og allir Grindvíkingar. Ég fékk fyrirskipun um að pakka snyrtidótinu hennar, einhverjum fötum og fór svo bara í íþróttabuxunum mínum, bol, úlpu og mætti á tásunum í inniskónum mínum. Ég fékk ekki háa einkunn hjá Sif fyrir pökkunina, tók bara helminginn af snyrtidótinu og tvær nærbuxur, ég hafði bara engar áhyggjur, við vorum að fara koma heim daginn eftir en það reyndist aldeilis ekki vera raunin. Á mánudeginum gat ég skotist heim þegar okkur var gefinn kostur á að sækja það helsta á fimm mínútum og þann dag gátum við komist í íbúð sem Sigga systir gat reddað okkur. Hún stóð sig frábærlega, með mömmu og pabba erum við fjölskyldan alls fjórtán og strax á sunnudeginum var Sigga búin að redda okkur öllum í íbúð. Við þurftum svo að flytja okkur í Seljahverfið í Breiðholti, aftur var það Sigga systir sem reddaði okkur og við vorum í þeirri íbúð þar til við gátum flutt okkur hingað í Stefnisvoginn.“
Grindvíkingar í Stefnisvogi
Íbúðirnar í Stefnisvoginum voru upprunanlega ekki byggðar sem leiguíbúðir. Þær voru flestar tilbúnar til afhendingar í desember og eftir eldgosið 14. janúar, þegar ljóst var að Grindvíkingar myndu ekki flytja aftur heim í bráð, hefur verið mikil umferð flutningabíla og Grindvíkingar að flytja búslóðir sínar inn á hið nýja heimili. Áður en hamfarirnar áttu sér stað var ætlunin að leigja íbúðirnar á almennum markaði en aðilinn sem sér um Stefnisvoginn gat ekki hugsað sér annað en hjálpa Grindvíkingunum og alls kyns tilslakanir voru gerðar, t.d. hvað varðar uppsagnarfrest og gæludýrahald. Flestir hafa gert eins árs leigusamning og heyra má á Grindvíkingum að þeir eru mjög þakklátir en þurfa að laða sig að breyttum aðstæðum, t.d. er bara gert ráð fyrir einum bíl á íbúð og Grindvíkingar þurfa að aðlaga sig breyttum sorphirðumálum frá því sem þeir voru vanir í Grindavík.
Jóhann og Sif bjuggu í 168 fermetra raðhúsi í Grindavík, voru með tvo bíla og síðast en ekki síst voru þau með hesta í hesthúsabyggðinni austur í hverfi. Þau hafa þurft að aðlaga sig breyttum veruleika. „Við erum nýflutt hingað í Stefnisvoginn, við fengum að vera frítt í íbúðinni í Seljahverfinu og erum auðvitað ofboðslega þakklát fyrir það. Við hefðum getað flutt hingað fyrr, fyrir jól þess vegna, en höfðum hreinlega ekki orku í að sækja búslóðina til Grindavíkur, það fór mjög vel um okkur í Breiðholtinu. Eftir 14. janúar var hins vegar ljóst að við værum ekkert að fara búa í Grindavík í bráð og þá var ekkert annað að gera en setja undir sig hausinn og flytja búslóðina. Þetta eru æðislegar íbúðir en vissulega er munur að fara úr 168 fermetra raðhúsi með þremur svefnherbergjum og bílskúr, í rúmlega 100 fermetra íbúð í blokk með tveimur svefnherbergjum. Ég hef aldrei áður búið í blokk svo þetta er ný reynsla fyrir mig. Leigusalinn er frábær, hann hefur gert alls kyns tilslakanir og við hefðum t.d. ekki flutt hingað ef við hefðum ekki mátt vera með hundinn okkar með. Við eigum fjóra hesta, einn veturgamlan og svo er von á tveimur folöldum í sumar. Við gátum komið þeim fyrir í Landeyjunum en hvar við getum haft þá nálægt okkur í framtíðinni verður bara að koma í ljós. Við vorum nýbúin að stækka hesthúsið okkar í Grindavík, hvort við fáum það bætt og þá hversu mikið vitum við ekki en það er mun dýrara að vera með hesta í Reykjavík en í Grindavík,“ segir Jóhann.
Framtíðarheimili
Jóhann og Sif voru ennþá að taka upp úr kössum þegar blaðamann bar að garði. Það er ekki komin mikil reynsla á nýja heimilinu en þeim þykir vænt um að hitta oftast kunnugleg Grindavíkurandlit þegar þau koma eða fara. Þau búa í Stefnisvogi 6, allar íbúðirnar þar eru með Grindvíkingum og meirihluti íbúa í öllum Stefnisvoginum eru Grindvíkingar. Grindvísku krakkarnir hafa búið sér til leiksvæði niðri í bílakjallaranum og þar er búið að koma upp píluspjaldi. Jóhann sér fyrir sér að allir íbúar komi saman niðri, grilli og hafi gaman en fólk er bara rétt svo að koma sér fyrir og það á eftir að koma í ljós hvernig þessi Grindavíkurbyggð muni þróast. Jóhann og Sif ætla sér að nýta úrræði ríkisstjórnarinnar og eru farin að svipast um eftir húsnæði til að kaupa.
„Við skuldum ekki mikið í húsinu okkar í Grindavík og ætlum okkur að nýta það sem ríkið er að bjóða okkur og kaupa nýja eign. Er þetta ekki kallað að láta peningana vinna fyrir sig? Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að við getum ekki keypt okkur sambærilegt hús hér á höfuðborgarsvæðinu eins og við eigum í Grindavík og þurfum að vanda valið því við erum með hund og þurfum að komast í fjölbýlishús sem leyfir gæludýr. Við erum búin að skoða nokkrar íbúðir en erum á byrjunarreit og ætlum að flýta okkur hægt.
Okkar fyrsta val er höfuðborgarsvæðið, við erum bæði að vinna hér og erum ekki með ung börn sem við þurfum að koma í skóla svo ég á frekar von á að við setjumst að hér á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst Reykjanesið ekki vera spennandi kostur eftir síðustu atburði. Hver veit nema þessar náttúruhamfarir eigi eftir að teygja sig nær byggðinni þar? Síðasta svona skeið stóð yfir í þrjátíu ár, ef ég hef valið vil ég helst sleppa við þetta.“
Íslandsmeistaraefni
Jóhann Þór er kominn af mikilli körfuboltafjölskyldu en faðir hans, Ólafur Þór Jóhannsson, lék lengi með Grindavík og öll systkini hans hafa orðið Íslandsmeistarar með Grindavík, Sigríður Anna árið 1997 og yngri bræður hans, Þorleifur og Ólafur, árið 2012 og 2013. Þorleifur þjálfar kvennalið UMFG í dag og Ólafur er fyrirliði karlaliðsins sem Jóhann Þór þjálfar. Jóhann var aðstoðarþjálfari þegar titlarnir mættu í hús árið 2012 og 2013, hann þjálfaði kvennalið UMFG tímabilin 2013 og 2014 og tók svo við karlaliðinu árið 2016. Illa gekk á þessu fyrsta tímabili en árið eftir kom hann liðinu alla leið í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á móti KR, eftir að liðið lenti 0-2 undir í úrslitarimmunni. Hann tók sér pásu frá þjálfun eftir tímabilið 2019 og tók svo óvænt við má segja fyrir síðasta tímabil. Eftir það tímabil kallaði Ólafur bróðir hans eftir meiri metnaði og úr varð að Grindavík er með lið í höndunum í dag sem getur farið alla leið. Það versta fyrir Grindvíkinga er að hið minnsta fimm önnur lið telja sig vera í sömu sporum, mótið hefur aldrei verið eins jafnt.
„Það er búinn að vera sláttur á okkur, því er ekki að neita. Við erum búnir að vinna sjö leiki í röð í deildinni en töpuðum því miður í bikarnum fyrir Álftanesi, það hefði verið frábært ef bæði lið Grindavíkur hefðu mætt í Laugardalshöllina í bikarvikunni. Við gerðum breytingar um áramótin, sendum Króatann heim og fengum Spánverjann Julio De Assis í staðinn. Hann hefur smellpassað inn í það sem við viljum gera og fleiri leikmenn hafa stigið upp í leiðinni. Daniel Mortensen virðist njóta þess að fá systur sína í kvennaliðið og Deandre Kane á bara eftir að vaxa held ég. Hann er líklega besti leikmaður sem ég hef þjálfað, með ótrúlegan leikskilning og er góður á báðum endum vallarins. Síðast en ekki síst er hann ótrúlegur keppnismaður sem þolir hreinlega ekki að tapa. Það hefur stundum gustað í kringum hann þegar illa gengur því hann gerir sömu kröfur til liðsfélaga sinna og síns sjálfs og oft má rangtúlka hegðun hans séð úr stúkunni. Málið er bara að liðsfélagar hans dýrka að spila með honum og þeir hafa bætt sig mjög mikið með því að spila með honum, ekki síst þeir ungu sem læra eitthvað nýtt af honum á hverjum degi nánast. Ég er mjög ánægður með hann og liðið í heild sinni, við eigum helling inni ennþá og þá sérstaklega sóknarmegin og ég hlakka til lokasprettsins í deildinni og svo komandi úrslitakeppni. Það er búinn að vera sláttur á okkur en deildin er svo jöfn að tvö töp geta auðveldlega þýtt að við erum í baráttu um að komast inn í úrslitakeppni, sömuleiðis er stutt í toppinn en við verðum bara að vera á tánum. Það eru allavega fimm lið sem hugsa nákvæmlega eins og við, önnur þrjú sem telja sig líka geta gert atlögu að titlinum, mótið er fáranlega jafnt þar sem pínulítil atriði geta skipt sköpum.“
Áfram afreksstarf
Hvað varðar framtíð íþrótta í Grindavík, trúi ég staðfastlega að við öll munum gera allt sem í valdi okkar stendur til að halda afreksstarfinu gangandi. Það hefur sýnt sig í vetur að Grindvíkingar líta á þessa leiki sem tilefni til að koma saman og hittast. Ef þetta dettur upp fyrir, sama hvort það er meistaraflokksleikur í körfubolta eða fótbolta, er ég fyrst hræddur um að samfélagið liðist í sundur. Ef við getum haldið áfram að hittast svona sem Grindvíkingar að styðja okkar lið, ýtir það undir að við tilheyrum grindvísku samfélagi. Krafan í ár hjá okkur er að vinna titla, kannski verður ekki raunhæft að gera sömu kröfu á meðan ástandið verður svona áfram í Grindavík en það skiptir ekki máli. Aðalatriðið er að geta komið saman, stutt okkar lið og fagnað sigri eða verið fúl yfir tapi,“ sagði Jóhann Þór að lokum.