Grindavík í myndum
Ljósmyndasafn Grindavíkur vinnur að því að gera ljósmyndir frá Grindavík, sem teknar eru á ýmsum tímum, aðgengilegar á netinu. Til þess fær safnið lánaðar ljósmyndir Grindavíkinga til að skanna og setja á netið. Alls konar myndir fá þarna inni; nýjar og gamlar af umhverfi, byggingum, atvinnulífi, mannlífi, höfninni, skipum og bátum og svo auðvitað Grindvíkingum sjálfum.
Nú um stundir er unnið að því að vinna með myndir Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar, kennara, sem er mikill áhugamaður um ljósmyndun og varðveislu ýmis konar minja. Hann byrjaði ungur að taka myndir á 6.áratug síðustu aldar og hefur mikið myndað umhverfi, atvinnulíf og íbúa staðarins, auk þess að varðveita eldra efni. Myndir hans eru ýmist á pappír eða slides, en mest á filmum og telja menn að um sé að ræða hátt á annan tug þúsunda mynda.
Strax þegar Ljósmyndasafn Grindavíkur varð til, árið 2004, var leitað til Ólafs Rúnars, en hann vildi bíða eftir betri tækni til að gera þetta sem best. Það var svo fyrir tilstilli Gunnars Tómassonar og styrks frá Þorbirni ehf, sem farið var af stað með verkið s.l. haust. Það var orðið afar brýnt að bjarga myndunum frá glötun, auk þess sem Ólafur Rúnar getur oftar en ekki, rakið sögu hverrar myndar, en slíkt er afar mikils virði við varðveislu slíkra heimilda. Nú er búið að skanna inn elstu myndirnar fram til um 1970, en þá er eftir að setja texta við þær allar. Það er tímafrek vinna að skanna filmur og þarf mikla þolinmæði til, en þetta verk er unnið, að hluta til, fyrir styrk frá Menningarráði Suðurnesja. Vonast er til þess að fleiri fyrirtæki í Grindavík komi inn í þetta verkefni og styrki það, svo hægt verði að klára verkið innan margra ára.