Áhersla á jólalegar samverustundir í Grunnskóla Grindavíkur
Áhersla á jólalegar samverustundir Í Grunnskóla Grindavíkur hefur ýmislegt skemmtilegt verið gert fyrir jólin og mikill metnaður lagður í að skapa notalega aðventu og skreytt af miklum móð.
Nemendur í 1.–3. bekk fóru í Kvikuna þar sem kveikt var á jólatré og jólasveinar kíktu í heimsókn. Ungt fólk úr björgunarsveitinni Þorbirni sá um veitingar og skemmtu nemendur sér vel. Þá fóru börnin í heimsókn í Grindavíkurkirkju þar sem jólasagan var rifjuð upp og sungið, virkilega góð samvera.
Þá hefur skólinn verið skreyttur á skemmtilegan hátt og meðal annars í anda Uppbyggingarstefnunnar sem unnið er eftir í Grunnskóla Grindavíkur. Þá er það skemmtileg hefð hjá nemendum að skreyta hurðir á skólastofum og metnaðurinn og frumleikinn í fyrirrúmi.
Á aðventunni er skólastarfið brotið upp á ýmsan hátt þar sem nemendur skreyta stofur, fá kakó og piparkökur í skólastofuna og horfa á jólamyndir og farið í spurningaleiki eins og Kahoot. Söngur og tónlist er fyrirferðarmikil á þessum árstíma. Kennarar í elstu árgöngunum tóku sig til og bökuðu vöfflur fyrir nemendur en hjá nemendum á unglingastigi hefur skólastarfið verið með öðruvísi hætti sökum sóttvarnarreglna.