Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Gríðarlega vel sóttir foreldramorgnar í Bókasafni Reykjanesbæjar
Föstudagur 9. mars 2018 kl. 07:00

Gríðarlega vel sóttir foreldramorgnar í Bókasafni Reykjanesbæjar

Foreldramorgnar eru vikulegir viðburðir sem starfsfólk Bókasafn Reykjanesbæjar býður upp á og hafa gert síðustu þrjú ár. Á hverjum fimmtudegi kl. 11 mæta foreldrar í fræðslu eða spjall, fá sér kaffi saman og ræða um áskoranir barnauppeldis. Anna Margrét Ólafsdóttir verkefnastýra hjá Bókasafni Reykjanesbæjar fékk hugmyndina um Foreldramorgna þegar hún hafði nýlega hafið störf á bókasafninu en hún hafði fylgst með samskonar viðburðum á bókasöfnum annars staðar á landinu. „Þetta er verkefni sem bókasöfn annars staðar á landinu eru með og við erum dugleg að miðla hugmyndum á milli okkar. Við vildum prófa þetta hérna, en þetta hefur ekki verið með þessu sniði áður í Bókasafninu.“

Verkefnið hefur gengið vonum framar en það var hugsað út frá þörfum foreldra í fæðingarorlofi, þó að vissulega séu allir foreldrar velkomnir. Boðið er upp á fræðslu annan hvern fimmtudag en hinn fimmtudaginn er samvera, kaffi í boði og tilboð á veitingum á Ráðhúskaffi. „Við bjóðum upp á fræðslu en líka samveru þannig að foreldrar geti komið og myndað tengslanet. Það er margt nýtt fólk að flytja í bæinn og þá er mikilvægt að geta myndað tengsl og sérstaklega fólk í fæðingarorlofi, það hættir til að einangrast. Þá er mikilvægt að geta miðlað alls konar fræðslu, eitthvað tengist bókum en ekki allt. Þátttaka í svona viðburðum skiptir máli upp á menningarlegt og samfélagslegt læsi sem er eitthvað sem bókasafnið leggur mikla áherslu á,“ segir Anna Margrét.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Flestir fræðsluviðburðirnir eru vel sóttir af foreldrum enda fjölbreytt dagskrá í boði allt árið. Fræðslan miðar að því að ná utan um öll þau krefjandi verkefni sem foreldrar takast á við á fyrsta aldursári barns. Ebba Guðný Guðmundsdóttir heilsukokkur hefur verið með kynningu á matargerð fyrir börn sem eru að byrja borða, Rauði Krossinn var nýlega með skyndihjálparnámskeið miðað að ungabörnum og Kristín Maríella, sem er einn vinsælasti snappari landsins sem fjallar um barnauppeldi, kynnti RIE-uppeldisnálgunina fyrr í vetur. Að auki hefur verið kynning á ungbarnanuddi, taubleyjum, smekkjum og krakkajóga.

Anna Margrét segir mikilvægt að Bókasafnið byrji snemma að kynna fólk fyrir starfsemi safnsins. „Við erum að kynnast mörgum börnum og foreldrum sem síðan koma til okkar næstu árin. Þau kynnast bókasafninu strax mjög ung, með foreldrum sínum á foreldramorgnum og svo eldast þau með safninu. Við höldum áfram að þekkja þau og fá þau í heimsókn en hér eru líka viðburðir á öðrum tímum fyrir börn á öllum aldri.“

Bókasafn Reykjanesbæjar er 60 ára í dag, 7. mars, og er þar með orðin ein elsta, opinbera stofnun bæjarins. Bókasafnið mun bjóða upp á ýmsa viðburði á afmælisárinu en í dag, miðvikudag, verður afmælisveisla frá kl. 15 til 18 þar sem öllum bæjarbúum er boðið að koma og fá sér köku og kaffi. Annað á dagskránni á afmælisárinu er að opna sýningu um sögu safnsins og svo verður opnuð sýning í teiknimyndasögudeildinni þar sem Lóa Hlín Hjálmarsdóttir sýnir verk sín ásamt því að halda námskeið 17. mars um teiknimyndasögugerð. Þangað eru allir velkomnir og engin þörf á því að kunna að teikna eða vera með góða kímnigáfu. Aðrir fastir viðburðir halda áfram út árið en Bókasafnið tekur á móti leikskólum bæjarins í hverri viku í sögustund og einnig hittast konur sem eru hættar að vinna og prjóna föt fyrir leikskólana til að eiga. Notaleg sögustund með Höllu Karen á laugardögum er mjög vinsæll viðburður og svo er Bókabíó einu sinni í mánuði, Leshringur, Heilakúnstir sem er heimanámsaðstoð fyrir börn, Sumarlestur í sumar, Hugleiðsluhádegi alla mánudaga, Heimskonur og Erlingskvöld.

Hlutverk bókasafna er að þróast og hefur breyst mikið á undanförnum árum. Það er ekki lengur þannig að þú labbar inn og það á að vera algjör þögn og má ekkert segja. „Bókasafn Reykjanesbæjar er lifandi bókasafn, hér er að auki kaffihús og þjónustumiðstöð bæjarins. Það er samt líka hægt að fá ró og næði sem margir vilja en margir námsmenn nýta lærdómsaðstöðuna á neðri hæð hússins. Okkar hugmynd er að við viljum vera þriðji staðurinn í lífi fólks, einhvers konar heimili utan veggja heimilisins. Fólk er heima hjá sér, í vinnu eða skóla og svo á Bókasafnið að gegna hlutverki þriðja staðarins sem fólk hefur í lífinu. Sú stefna er rekin víðast hvar á Norðurlöndunum. Bókasafn á að vera samkomustaður og menningarmiðstöð enda er okkar hlutverk að efla samfélagslegt og menningarlegt læsi, læsi þarf ekki endilega að þýða lestur á bók,“ segir Anna Margrét að lokum.