Gríðarleg verðmæti í safni Viðars
Heimsókn Sjónvarps VF á Byggðarsafn Reykjanesbæjar
Byggðarsafn Reykjanesbæjar varðveitir í dag um 5000 myndbandsspólur frá Keflvíkingnum Viðari Oddgeirssyni sem nýlega féll frá. Viðar starfaði hjá RÚV í þrjá áratugi sem fréttaritari á Suðurnesjum og myndatökumaður á svæðinu. Safn Viðars er afar verðmætt fyrir Suðurnesin enda má þar finna fjölbreyttar myndir af mannlífi, atvinnuháttum, menningu og íþróttum. Viðar var líka duglegur að sanka að sér myndbandsefni frá bæjarbúum og varðveita það. Unnið er að því að koma safninu á stafrænt form en það er ærið verkefni.
„Það sem okkur finnst áhugavert, það þarf ekki að vera að næstu kynslóð þyki það áhugavert. Þess vegna er mikilvægt að hafa víða söfnun,“ sagði Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðarsafns Reykjanesbæjar, þegar fréttamaður Víkurfrétta fékk að líta yfir safn Viðars. Hún segir að þannig eigum við möguleika á að vinna úr þessu efni seinna meir ef áhugi verður fyrir hendi. Til þess að efnið nái að nýtast þá verður það að vera aðgengilegt að því formi sem hentar hverju sinni. Viðar hafði í mörg ár unnið að því að koma gömlu spólunum á stafrænt form en mikið er þó eftir óunnið. „Hann þekkti þetta safn mjög vel og kannski svo vel að enginn annar veit hvernig staðan er á þessu. Þetta er algjörlega ómetanlegt efni. Allt myndefni er verðmætt. Hér er hellingur af hráefni fyrir framtíðarkynslóðir að nýta, en þau eiga örugglega eftir að kunna að meta þetta enn betur en við,“ segir Sigrún ennfremur.
Innslag Sjónvarps Víkurfrétta má sjá hér að neðan.