Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gríðarleg verðmæti að eiga hreint haf og hreint land
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 6. júní 2021 kl. 07:15

Gríðarleg verðmæti að eiga hreint haf og hreint land

-segir Tómas J. Knútsson foringi Bláa hersins í aldarfjórðung.

Útvegsmannafélag Suðurnesja styrkti Bláa herinn á dögunum um fimm milljónir króna. Peningunum verður varið í hreinsun strandlengjunnar á Suðurnesjum og gera strendur á Reykjanesskaganum þær hreinustu á Íslandi. Tómas Knútsson hefur farið fyrir starfi Bláa hersins í aldarfjórðung. Víkurfréttir hittu hann að máli á dögunum og þá bar styrkinn frá útvegsmönnum á góma. Við spurðum þá Tómas hvort forsvarsmenn sjávarútvegarins væru að vakna núna eða hvort þeir hafi verið að styðja við starfsemina.

„Ég talaði nú í tuttugu ár fyrir daufum eyrum. Það var nú eiginlega ekki fyrr en ég hótaði bara að henda ruslinu aftur í sjóinn að málin fóru að þróast í rétta átt. Auðvitað held ég að samfélagsmiðlar og eitthvað sem heitir samfélagsleg ábyrgð og að vilja góða og bætta ímynd í umhverfismálum vegi þyngst,“ segir Tómas og bætir við:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Auðvitað er hundfúlt að þurfa að vera að benda á eitthvað, ég hef nú alveg sleppt því að vera að benda á einhverja sökudólga, við eigum landið okkar og við eigum hafið okkar og við lifum á þessum tveimur náttúruöflum, og okkur ber bara siðferðileg skylda að hafa þetta eins hreint og hægt er. Það sem ég held að hafi verið svona vendipunkturinn í þessu öllu saman, að núna í dag er þetta ekkert annað en verðmæti, að eiga hreint haf og hreint land. Og það eru alltaf fleiri og fleiri, og þjóðin er í raun og veru bara algjörlega að keppast við það að reyna að hanna eitthvað úr þeim vörum sem falla til, reyna að endurvinna eins mikið og hægt er, að vera að urða er orðið algjört tabú, að brenna og svoleiðis. Og það eru til svo æðislegar lausnir og það er bara alveg fullt af fólki að vinna í því að hafa þetta í betri farvegi.“

– Talandi um sjávarútveginn, þá skiptir máli að hafið sé eins hreint og mögulegt er, er þetta ákveðin vitundarvakning í sjávarútveginum? Þeir sem stýra þar, þeir eru t.d. að nýta fiskinn enn betur. Finnst þér hafa orðið hugarfarsbreyting, þegar menn eru að koma að landi, hvað þeir koma með með sér, það er ekki verið að henda lengur í sjóinn. Eða hvað? 

„Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, fóru af stað með slagorði í gamla daga sem hét Hreint haf, hagur Íslands. Þau byrjuðu að hvetja útgerðarmenn að koma með allt að landi, allt það sem féll til um borð, og ég get alveg vottað það að það sem ég er að hreinsa upp úr fjörunum eru bara gamlar syndir – og það virðist vera dálítið mikið af þeim. Þetta er inni í grjótgörðunum, þetta er í fjörunum, svo djöflast hann Ægir á þessu alveg fram og til baka, mokar þessu upp á land.

Það var nú dálítið merkilegt fyrir tveimur árum síðan, þá var háflóð, og töluvert brim við Grindavík og þá gengu skaflarnir langt upp á land og eftir sátu bara heilu túnbreiðurnar fullar af plasti. Sem sagði manni það að það var svona mikið í grjótinu. Og þetta var allt þrifið og rannsakað. Svo var komið ár seinna og þá var annað eins magn komið, því það er svo mikið í grjótinu. Og auðvitað þarf að fjarlægja þetta, því annars brotnar þetta niður í þessar litlu einingar, þetta örplast sem enginn vill. Það finnst orðið örplast uppi á Vatnajökli, sem er ósköp eðlilegt því þetta er auðvitað lítið og létt, þetta gufar bara upp og svo rignir þessu niður.

Útvegsfyrirtækin samstíga

Útvegsfyrirtækin eru ofsalega samstíga út um allt Ísland, með að koma með allt að landi, allt sem fellur til um borð og aflann eins verðmætan og hægt er. Og nú er verið að nota þorskinn alveg upp til agna. Þetta eru gríðarleg verðmæti að eiga hreint haf og hreint land.

Mér finnst þjóðin vera í smá keppni núna. Að vera að endurvinna, að vera umhverfisvæn. Og vera til fyrirmyndar og vilja gera samfélaginu eins gott og hægt er. Maður vill nú ekkert vera einhver „partý killer“ en sá sem að tekur ekki þátt í þessu nýja „trendi“ sem er í gangi, hann verður bara útundan. Hann á ekki séns.

Svo er hægt að drepa allt á samfélagsmiðlum, þú þarft ekki annað en að labba meðfram einhverju svæði einhvers staðar, taka myndir af því og pósta því á samfélagsmiðlum, og það fer allt á annan endann.

Við Suðurnesjamenn getum gert rosalega mikið í því að fegra og bæta okkar ímynd. Og það er einmitt þetta verkefni sem við erum með núna, Reykjanes jarðvangur, UNESCO Geopark, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Blái herinn tóku höndum saman og gerðum samning. Ég er búinn að hólfa niður hérna 25–30 svæði, sem ég ætla að útdeila til fyrirtækja og stofnana og skóla. Svo er ég bara til taks þegar þau vilja gera sér glaðan dag og fara og taka þessi hólf sín og þrífa. Síðan ætlum við að vigta þetta allt og rannsaka hvað við hreinsuðum. Og eftir þetta ár getum við sagt að Reykjanesskaginn sé þá hreinasta landsvæði Íslands og búið til svona módel sem ætti að geta nýst öðrum sveitarfélögum út um allt land. Þetta er ekki neitt flókið atriði, þetta er bara spurning um að búa til verkefnið og hafa gaman að því. Þetta kostar ákveðið fjármagn og síðan er bara að láta slag standa og fara og hafa gaman.“

Tíu þúsund manns komið að verkefnum Bláa hersins

Á þessum 25 árum eru 10.000 manns búin að koma í verkefni hjá Bláa hernum. Þau eru búin að hreinsa upp 1.600 tonn. Það eru 80.000 vinnustundir sem liggja bak við þetta allt saman.

„Og þessi framtakssemi þessara aðila sem vilja koma í þessi verkefni, það er þessi umhverfisvitund, sem ég vil meina að þessi núvitund í dag snýst öll um. Þú getur gert rosalega mikið fyrir þitt samfélag sem er umhverfisvænt. Fyrir það fyrsta áttu að skila öllu því sem til fellur frá þér í réttan farveg, það er aðalatriðið. Síðan þarf að leysa allskonar svona atriði eins og að tunnurnar opnist ekki í öllu þessu roki sem við höfum hér,“ segir Tómas

Tómas bendir á landsvæði og fyrirtæki á Suðurnesjum sem eiga stór og mikil landsvæði sem er á þeirra yfirráðasvæði. „Þau eiga bara að bretta upp ermar og hafa þessi svæði hrein. Sýna samfélagslega ábyrgð. Vonandi tekst okkur hérna hjá þessu batteríi, Reykjanes jarðvangi, SSS og Bláa hernum, að útbúa svona smá „pepp“ fyrir fyrirtækin um að taka sín hólf og gera þeim góð skil. Ég trúi því að við hérna á Reykjanesi eigum eftir að eiga verðmætasta auglýsingaskilti sem til er: „Komið og njótið hreinna fjara á Suðurnesjum.“ Þetta er bara vörumerki – og það er nú þannig að Blái herinn má votta fjörur. Það er tekið gott og gilt hjá Umhverfisstofnun, að ef Blái herinn er búinn að þrífa einhvers staðar, að þá er það hreint – og það er mjög gaman að því.“

– Það er ansi flottur stimpill.

„Það er mjög flott, það eru verðmæti í því. Landvernd og Blái herinn eiga vefsvæði sem heitir Hreinsum Ísland. Þar er allt tíundað niður, hvernig þú átt að hafa árangursríka strandhreinsun. Þú getur ekki farið með leikskólakrakka í svona grjótgarða, þú ferð með þá í sand-fjörurnar – og þú verður að klæða þig eftir veðri, aldrei vera lengur en tvo tíma í einu, hafa gaman að þessu, vera með nesti. Þetta er svo æðislega góð útivera, hún skilur svo mikið eftir sig fyrir þá sem eiga eftir að erfa þetta land okkar.“

– Og talandi um strandlengjuna, þú ert farinn að nota dróna til þess að skoða stöðuna, nýta þér nýjustu tækni. Ætlarðu að gera meira af því?

„Ja, nú er ég ekkert svona tæknigúrú en þegar maður lendir í þrengingum, eins og þegar Covid kom í fyrra, þá duttu bara tíu verkefni strax út af verkefnaskránni, sem var hingað og þangað um landið að taka á móti fólki sem kæmi með litlum skemmtiferðaskipum. Eitt þeirra átti að koma hingað til Keflavíkur og við ætluðu að fara eitthvað út á Reykjanes og gera eitthvað, nema það að ég sagði við konuna: „Nú hengjum við hjólhýsið aftan í bílinn og nú förum við og keyrum hringinn í kringum landið og skoðum fjörur og förum að litakóða fjörur.“ Vegna þess að í framtíðinni, þá veit ég það að íslenska ríkisstjórnin ætlar sér að leggja fjármuni í að þrífa landið sitt – og þá er bara gott að byrja á verstu svæðunum. Og það er akkurat það sem ég var að gera hérna með Reykjanesskagann. Ég keypti mér dróna og fór að filma verstu svæðin. Nú á ég myndir af þeim, og svo tökum við myndir þegar svæðin eru orðin hrein, og þá erum við með þessi verðmæti í höndunum um það að hafa gert eitthvað.

Aðalatriðið í dag er að blása það upp að vera að gera eitthvað, í staðinn fyrir að láta negla sig við að gera ekki neitt, því það er erfiðara að vinna sig út úr þeirri stöðu heldur en að hafa gert eitthvað. Og þetta er bara skemmtilegt og ég ætla að skora á þau fyrirtæki sem hafa tækifæri á því að gera sér einn glaðan umhverfisdag að hafa samband við mig, því ég hef svo gaman að þessu. Það er bara málið.“

30% til björgunarsveita

– Í þessum fimm milljón króna styrk frá Útvegsmannafélagi Suðurnesja þá ætlarðu að fá björgunarsveitirnar með þér í lið í þessu og láta þær fá hlut af styrknum?

„Já, þrjátíu prósent. Vegna þess að björgunarsveitirnar komast á staðinn með sín tæki og tól. Sem eru þá fjórhjóladrifnir bílar því þetta eru þannig svæði, þetta er svona klöngur vesen, grjótgarðar og erfitt. En þetta er bara frábær fjáröflun fyrir björgunarsveitirnar að geta fengið styrk í sína frábæru starfsemi og ég tala nú ekki um hér á Suðurnesjunum því nú er búið að vera mikið álag á þeim vegna þess að náttúran fór að trufla dálítið prógrammið hjá okkur. En þetta módel Bláa hersins um það hvernig hann vinnur, þetta virkar út um allt land, og það eru alls staðar björgunarsveitir og það vantar alltaf peninga. Svo það væri gríðarlegur akkur fyrir björgunarsveitirnar að fara í svona hólfaskiptingu á sínum svæðum og að fyrirtækin á svæðinu, hvort sem það eru sjávarútvegsfyrirtæki eða önnur fyrirtæki settu bara saman í púkk til að sjá þetta framkvæmt. Og ég hlakka bara til, þegar við hérna á Reykjanesinu erum búin að gera okkar, hvort einhverjir aðrir taki ekki þetta módel og færi það eitthvað annað.“