Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Grallarar rassakastast á Reykjanesi
Á meðfylgjandi mynd má sjá þau Eggert og Selmu Hrönn afhenda Fanney D. Halldórsdóttur skólastjóra í Grunnskólanum í Sandgerði fyrstu eintökin af nýrri bók um Grallarana.
Þriðjudagur 10. júní 2014 kl. 09:15

Grallarar rassakastast á Reykjanesi

Í vikunni kemur út bókin „Glingló, Dabbi og Rex – Rassaköst á Reykjanesi“ eftir Selmu Hrönn Maríudóttur. Bókin er sjötta bókin í bókaflokknum um kisurnar Glingló og Dabba og hundinn Rex. Í þessari bók fara þau í könnunarleiðangur um Reykjanesskagann. Þau hitta m.a. bergrisa, hlaða beinakerlingu, ganga yfir brú á milli heimsálfa, prófa jarðskjálftahermi og lenda í skemmtilegum ævintýrum.

Sögurnar eru á vísnaformi, vel til þess fallnar að auka orðaforða barna en einnig sagðar á einföldu máli fyrir yngstu lesendurna.

Bókin sem hér um ræðir er unnin í samvinnu við Reykjanes jarðvang og kemur jarðvangurinn til með að gefa bækur í alla leik- og grunnskóla á Suðurnesjum. Fyrstu eintökin voru afhent í Grunnskólanum í Sandgerði við upphaf jarðvangsviku á Reykjanesi sem fram fer 2.-8. júní.

Selma Hrönn er ánægð með að Grallararnir hafi ákveðið að heimsækja Reykjanesskagann á nýjan leik en til er bók um ævintýri þeirra í Sandgerði. Þessi saga standi henni nærri enda býr hún og starfar í Sandgerði. Þá er hún í fyrsta skipti að teikna myndirnar í bókinni sjálf. Að hennar sögn eru Grallararnir alsælir eftir skemmtilegt og fróðlegt ferðalag um svæðið og áhugasamir um frekari ævintýri á Reykjanesskaganum.
Eggert Sólberg Jónsson verkefnastjóri Reykjanes jarðvangs segir að bókin ætti að höfða til fjölskyldufólks en sérstaklega barna yngri en 10 ára. Jarðvangurinn sé sífellt að leita leiða til að auka framboð af fræðslu um svæðið og þetta er ein leið til þess. Þá sé bókin vonandi hvatning fyrir fjölskyldur að skoða svæðið betur og jafnvel sjá það í nýju ljósi.

Bókin kemur m.a. í verslanir Nettó og Samkaupa í vikunni.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024