GRAL fær fjögurra milljón króna styrk frá leiklistarráði menntamálaráðuneytisins
Grindvíska atvinnuleikhúsinu, GRAL, hefur verið tilkynnt að það fái fjögurra milljón króna styrk frá leiklistarráði, sem starfar á vegum menntamálaráðuneytisins. Þetta er mikil viðurkenning fyrir GRAL sem hefur þegar sett upp eina sýningu, ,,21 manns saknað".
,,Þetta, ásamt styrk frá leiklistarráði Suðurnesja og Grindavíkurbæ, þýðir að hægt verður að gera næsta leikrit, Horn á höfði, án nokkurs afsláttar. Við verðum í efstu deild," segir Bergur Ingólfsson, annar helmingurinn af GRAL, hinn helmingurinn er Víðir Guðmundsson, báðir lærðir leikarar.
Næsta leikrit, Horn á höfði, er barnaleikrit og fjallar um strák sem vaknar einn dag með horn á hausnum. Hann og Jórunn vinkona hans reyna að finna út hvernig á þessu stendur og það kemur í ljós að vandamálið tengist Hafur-Birni, landnámsmanni í Grindavík og álögum sem hvíla á staðnum. Þau félagarnir verða því að koma í veg fyrir einhverskonar grindvískan heimsendi og lenda í ýmsum ævintýrum í þeim björgunarleiðangri. Bergur segir að þeir séu þegar komnir vel af stað með að skrifa leikritið.
Af www.grindavik.is
---
VFmynd/elg - Myndin var tekin í haust þegar GRAL og Grindavíkurbær skrifuðu undir samstarfssamning