Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Grænlenskar konur eru mjög hraustar“
Björg og Jökull maðurinn hennar.
Sunnudagur 24. desember 2017 kl. 07:00

„Grænlenskar konur eru mjög hraustar“

- Mælir með því að fólk breyti um umhverfi og víkki sjóndeildarhringinn

Björg Sigurðardóttir hefur unnið sem ljósmóðir í þrjátíu og fimm ár eða frá árinu 1982. Hún hefur farið víða um í starfi sínu unnið á nokkrum stöðum á Íslandi, svo sem í Grænlandi, Færeyjum og Noregi. Björg fór ásamt Jökli, eiginmanni sínum, til Grænlands í fyrra þar sem hún vann sem ljósmóðir í eitt ár. Þar upplifðu þau ýmis ævintýri en þau telja að allir hafi gott af því að breyta um umhverfi og prófa eitthvað nýtt.
Í dag vinnur Björg sem ljósmóðir á sjúkrahúsinu á Akranesi, en hún settist niður með blaðamanni Víkurfrétta og sagði frá Grænlandsævintýrinu sínu og starfi sínu sem ljósmóðir.

Fékk Grænlandsbakteríuna
Ferð Bjargar til Grænlands í fyrra var fimmta ferð hennar þangað, en hún fór fyrst til að starfa sem ljósmóðir á Grænlandi árið 2010. Í fyrstu ferðinni var hún tvo mánuði, svo tvisvar sinnum í mánuð og svo einu sinni í viku. „Fyrir sjö árum síðan barst kall um það að það vantaði ljósmæður til Grænlands og þá var kannað hvort það væru einhverjar íslenskar ljósmæður tilbúnar að fara. Við vorum þrjár sem hoppuðum á það. Ég var búin að vera með þetta í huganum í mörg ár og þarna fékk ég tækifærið og sló til. Ég hef eignast góða vini í ferðum mínum og Grænland er stórkostlegt land á sinn einstaka hátt. Ég held líka að annað hvort fái maður Grænlandsbakteríu eða ekki,“ segir hún.

Ferðuðust um á snjósleðum
Björg og Jökull eiga þrjú uppkomin börn, einn strák sem býr á Íslandi og tvær stelpur sem búa í Danmörku. Yngri stelpan þeirra kom til Grænlands í fyrra um jólin og fékk að upplifa Grænland. „Við fórum með hana á hundasleða og það var ansi kalt daginn sem við fórum út á sleðann, ég held að það hafi verið um 30 gráðu frost en veðrið var samt gott og það var blankalogn. Við erum svo heppin að eiga góðan vin sem á hundasleða og tók okkur með. Það var stórkostlegt að fara með innfæddum manni á sleða.“
Eins og fyrr segir fóru þau hjónin bæði til ársdvalar og gerðu ekki ráð fyrir að koma heim nema eitthvað kæmi upp á. „Við fengum raðhús sem var alveg niður við sjóinn og vorum því með fallegt útsýni yfir hafið, þar sáum við skipa- og bátaumferðina þar sem veiðimenn komu með aflann að landi og skipin með vörur til og frá bænum. Það kemur flutningaskip á viku til tíu daga fresti til bæjarins og þar er höfnin opin allt árið, en norðar eru hafnirnar bara opnar á sumrin og fram á haust. Við vorum því heppin að fá ferskvöru á viku til tíu daga fresti.“
„Jökull fékk gott tækifæri að upplifa Grænland. Hann fór í snjósleðaferðir með góðum ferðahóp og kynnti íslenskar pönnukökur fyrir vinum okkar, stundum komst ég líka með. Einnig komumst við út á sjó, í veiðiferðir og skoðunarferðir á litlum bátum og ýmislegt fleira skemmtilegt.“


Björg í fjallgöngu með Sisimiut í baksýn

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gekk í hálftíma í vinnuna
Grænland er risastórt land og liggur byggðin að mestu út við strendur í bæjum og þorpum. Það liggja ekki vegir á milli landshluta líkt og á Íslandi, þannig að samgöngurnar eru með skipum, flugvélum eða bátum. „Ég hef örugglega ekki aldrei gengið jafn mikið og þetta síðasta ár. Ég gekk í vinnuna en það tók mig um 25 til 30 mínútur að ganga og mér þótti það alveg sjálfsagt, ég tók ekki strætó nema að það væri orðið verulega kalt eða ég væri of sein til að ganga.“

Bjuggu í skólabænum Sisimiut
Bærinn sem Björg starfaði í heitir Sisimiut, en þar búa rúmlega sex þúsund manns og þar er starfrækt sjúkrahús. Bærinn er um sjötíu kílómetra norðan við heimskautsbaug. Á Grænlandi eru starfrækt sjúkrahús og heilsugæslur í stærri bæjunum, sem einnig þjónusta þorpin í nágrenninu, en í þeim eru einnig litlar heilsugæslustöðvar með einum eða tveimur starfsmönnum. „Það er að færast í aukana að heilbrigðisstarfsmenn á Grænlandi séu grænlenskir, sem er mikilvægt. Ljósmæðurnar þurfa að fara til Danmerkur til að mennta sig ásamt læknunum, en þau koma gjarnan í starfsnám til Grænlands. Hjúkrunarfræðingarnir eru menntaðir í Nuuk og það er komið upp ágætis nám þar.“
Bærinn sem Björg og Jökull bjuggu í er skólabær, en Björg segir að námi sé dreift vel um landið. Iðnmenntun og menntun á heilbrigðissviðinu er til dæmis ekki endilega í sama bænum og svo er kennaranám staðsett annars staðar. Þannig safnast ekki allir saman á sama punktinn.

Talaði skandinavísku í Grænlandi
Grænlenskan er tungumál sem fáir ná tökum á, nema að vera fæddir og uppaldir í því málumhverfi. Það er mjög sérstætt og ólíkt okkar norrænu málum hér í Skandinavíu. „Ég talaði dönsku eða svokallaða skandinavísku og það gekk ljómandi vel, en við vorum alltaf með túlka með okkur ef að þess þurfti. Oft var það þannig að konurnar vildu fá túlka með okkur til að byrja með svona rétt á meðan við vorum að kynnast og svo gekk þetta ágætlega eftir það. Grænlenskan er mjög erfið og maður lærir ekki nema eitt og eitt orð en það var stundum hægt að átta sig á því hvað var verið að tala um, því þeir eiga líka tökuorð úr dönskunni en í heildina er þetta gjörólíkt.“



Björg á leiðinni í sjúkraflug ásamt samstarfskonu.

„Á Grænlandi er allt frítt“
Á Grænlandi var alltaf nóg að gera og mikið um barneignir, heilbrigðiskerfið úti er gott að sögn Bjargar og góð þjónusta í boði. Hún segir einnig að grænlenskar konur séu mjög hraustar enda sé fólk stöðugt á hreyfingu og fari ferða sinna fótgangandi. Fáir eiga bíla og fólk tekur bara strætó eða leigubíla. „Á Grænlandi er allt frítt, þú greiðir ekki fyrir þá læknisþjónustu sem þú þarft á að halda og lyf eru frí líka, það sem þú þarft á að halda er greitt fyrir þig, eða þú borgar með sköttunum þínum. Ef þú þarft meiri þjónustu eða stærri aðgerðir eða eitthvað slíkt þá ertu sendur til Nuuk eða Danmerkur. En svo blekkir veðrið oft á tíðum, það þarf jafnvel að fella niður flug vegna veðurs og skyggnis en maður skilur ekkert í því þegar maður lítur út um gluggann því veðrið er gott niðri í byggð. Sviptivindar eru sterkir og flugvellirnir liggja undir fjöllunum. Firðirnir eru sums staðar þröngir og það má líkja þessu við að fljúga til Ísafjarðar, það er komið inn með fjallinu og lent. Því getur oft verið erfitt að að fljúga, hvort sem er áætlunarvélum eða sjúkraflugvélum.“

Snjósleðar, skíði og streitulaust líf
Björg mælir hiklaust með því að fólk fari í svona ferðir, á Grænlandi sé lífið til dæmis streitulaust miðað við hvernig það er hér á Íslandi eða á Vesturlöndum. Hún er nokkuð viss um að hún eigi eftir að hoppa aftur ef henni gefst tækifæri til þess en þó ekki í ár.
„Á Grænlandi vorum við dugleg að stunda alls konar útivist, við fórum á gönguskíði en það er mikil skíðamenning þarna. Við vorum með snjósleðann við húsið og maður gat bara hoppað upp á hann þegar vel viðraði og snjórinn nægur. Við vorum í frábærum snjósleðahóp sem fór í ferðir nánast um hverja einustu helgi.“
Þau hjónin gátu farið á gönguskíðunum frá miðbænum og inn í baklandið eins og það er kallað úti, en þar er skíðasvæði og útivistarsvæði. „Skíðasvæðin þarna eru frábær, þau eru svo falleg og maður tekur nánast bara eitt skref út fyrir bæinn og þá er maður kominn í dásamlega náttúru.“



Sjúkraþyrlan tilbúin.

Bera hreindýr á bakinu
Grænlendingar eru veiðiþjóð og tekur öll fjölskyldan þátt í því að veiða. „Ef þú ætlar að veiða þá þarft þú að bera bráðina á bakinu, þú keyrir ekkert eftir henni og konur taka hikstalaust hálft hreindýr á bakið og bera fimm til tíu kílómetra leið, karlarnir taka heilt dýr og börnin taka jafnvel fjórðung eða lærið úr dýrunum og eru tekin með í veiði, þetta er bara lífið hjá þeim.“

Hefur unnið víða hérlendis og erlendis
Björg og Jökull komu heim í lok ágúst á þessu ári og núna vinnur Björg sem ljósmóðir á Akranesi. „Ég er búin að vera ljósmóðir síðan 1982 og hef unnið við þetta allar götur síðan, ég lærði í Reykjavík í gamla Ljósmæðraskóla Íslands og hef bætt við mig menntun seinna meir. Ég hef að auki unnið á HSS, á Ísafirði, þar sem ég leysti af í tvö ár með annarri vinnu, Akureyri, Neskaupsstað og Sauðárkróki. Svo hef ég farið til Noregs og Færeyja sem var mjög áhugavert og skemmtilegt. Færeyingar eru, rétt eins og Grænlendingar, mikil vinaþjóð okkar íslendinga og maður naut þess bæði þar og á Grænlandi hvað þessar þjóðir eru miklir vinir okkar og tala um okkur þannig og líta á sig sem vinaþjóð.“

Konur eru alls staðar eins
Ljósmóðurstarfið er mjög fjölbreytt og snýst ekki eingöngu um það að taka á móti börnum þar sem bæði gleði og sorg koma upp. „Það koma stundum erfiðir tímar og því megum við heldur ekki gleyma, en þetta starf er alltaf jafn stórkostlegt og maður verður ekki leiður í því og enginn dagur er eins. Starfið er líka meira en bara fæðingar, við sinnum líka fjölskylduvernd og öll fjölskyldan er saman í mæðravernd. Maður myndar góð tengsl við fjölskyldurnar og manni fer að þykja vænt um þær í mæðraverndinni. Það skiptir líka máli fyrir konur að þessi þjónusta sé til staðar í þeirra umhverfi, hvar sem það er, hér á landi, í Færeyjum, Grænlandi eða annars staðar. Konur eru alls staðar eins, sama hvar við erum í heiminum. Maður lærir mikið á því að fara annað að vinna og verður víðsýnni í leiðinni, þá fyrst lærist það að maður er ekki nafli alheimsins, heldur bara lítið peð í þessari veröld og maður kynnist fólki með aðra lífsýn.“

Enginn dagur eins
Þegar Björg er spurð hvað sé skemmtilegast í starfinu segir hún að mæðraverndin sé mjög skemmtileg því þar kynnist hún konunum vel og sjái gleðina sem fylgir því að eiga von á barni. „Það er yndisleg stund þegar barn fæðist og síðan er gaman að sjá eldri systkini koma og sjá litla barnið, þetta er svo margslungið og enginn dagur eins og þú veist í rauninni aldrei að hverju þú gengur þegar þú mætir. Þú veist aldrei hvað tekur við, hvort einhver detti inn í fæðingu eða eins og á Grænlandi, þá vissi ég ekki hvort ég væri að fara í sjúkraflug þann daginn eða hvað dagurinn bæri í skauti sér.“