Grænir karlar auðga mannlífið á Vallarheiði
Mannlífið á Vallarheiði í Reykjanesbæ blómstrar sem aldrei fyrr enda fjölgar íbúum hratt. Flestir eru íbúarnir námsfólk og fjölskyldur þeirra. Hermenn, sem áður þóttu hinn eðlilegasti hlutur á Keflavíkurflugvelli, eru hins vegar forvitnilegir og framandi sjón fyrir marga sem nú eru sestir að í þessari gömlu herstöð. Grænir karlar hafa verið áberandi á Vallarheiði í sumar og haust.
Fyrst voru það franskir hermenn sem voru hér snemma sumars. Nú á haustmánuðum var svo fjölþjóðleg heræfing í nafni Norður-Víkings. Eftir að æfingunni lauk hafa síðan verið á Vallarheiði bandarískir hermenn samkvæmt samningi um varnir landsins og eru þeir nýfarnir af landi brott.
Meðfylgjandi ljósmynd var tekin við gömlu flugstöðina þar sem hermenn voru á æfingu með sprengjuleitarsveit Landhelgisgæslunnar fyrir fáeinum dögum. VF-mynd: Hilmar Bragi