Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 3. júní 1999 kl. 22:51

GRÆNI HERINN Í KEFLAVÍK

Græni herinn, sjálfboðaliðaher stofnaður með það að leiðarljósi að taka ærlega til hendinni um gjörvallt Ísland og hafa gaman að því um leið, hefur yfirreið sína um landið á Suðurnesjum um helgina. Markmiðið er að sameina krafta áhugasamra sjálfboðaliða til að rækta og fegra byggðir og ból með samstilltu átaki. Hvert byggðarlag tekur sinn „gestasprett” þar sem liðsmenn Græna hersins einbeita sér að gróðursetningu, hreinsun og málun. Verkefnin sem ráðist verður í á hverjum stað verða valin í samráði við viðkomandi bæjar- og sveitarfélög. Sjónvarpið og Rás 2 munu fylgja Græna hernum um landið og flytja vikulega fréttir af verkum hans. Stuðmenn fara fyrir Græna hernum, en hljómsveitinni til halds og trausts á sjálfum samkomunum verða m.a. Úlfur skemmtari, plötusnúðarnir „Sérfræðingarnir að sunnan“, gó-gó dansarar o.fl. n Græni herinn og Stuðmenn á Suðurnesjum: Stuðmenn afhenda öllum þeim sem skrá sig í herinn boðsmiða Jakob Frímann Magnússon, utanríkisráðuneytisgæðingur fyrrverandi og forsprakki Stuðmanna, vinsælustu hljómsveitar Íslendinga fyrr og síðar er einn grænu hermannanna sem hefja herferð á landsvísu á Suðurnesjum um helgina. „Góðar hugmyndir hafa alltaf átt upp á pallborðið hjá okkur Stuðmönnum og þegar forráðamenn náttúruverndarsinna komu til okkar á síðasta ári og óskuðu eftir samvinnu þá tókum við vel í það. Við þróuðum síðan hugmyndina um samstarf og Græni herinn varð til. Hann var formlega stofnaður í Höfða þann 21. desember 1998 að viðstöddum forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, og borgarstjórans í Reykjavík, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem afhentu hernum eina milljón fræja til gróðursetningar. Stofnun hers á Íslandi þótt alþjóðafrétt því þá varð Costa Rica eitt eftir herlaust.“ Hvernig hefur gengið að fá ábyrgðar- og styrktaraðila til liðs við Græna herinn? „Þetta er málefni sem allir vilja styðja og nú þegar hafa Sparisjóðirnir, Olís, Toyota, Landssíminn, Samskip, Íslandsflug, Rás 2 og RÚV ákveðið að taka þátt í þessu framtaki. Það hefur í raun ekki þurft að sækjast eftir stuðningi því flestir þessir aðilar leituðu til okkar að fyrra bragði.“ Hver verður svo dagskrá Græna hersins á Suðurnesjum um helgina? „Okkur þykir rétt að hefja átak Græna hersins hér, á þeim stað sem erlent herlið hefur lengst verið á Íslandi. Við hefjum dagskrána kl. 12 á föstudag er þeir sem skráð hafa sig í Græna herinn mæta í húsnæði Iðnsveinafélags Suðurnesja að Tjarnargötu þar sem þeim verða verða afhentir búningar hersins, skírteini og vopn við hæfi. Hermenn okkar fá síðan heita súpu og brauð áður en liðinu verður stillt upp og marsérað upp í Vatnsholt og vatnstankurinn málaður, tré og plöntur gróðursettar, símaskrár urðaðar og umhverfið hreinsað til kl. 16 en þá verður gert gott kaffihlé með skemmtidagskrá en síðan unnið áfram fram að kvöldmat. Grillveisla hefst kl. 19 og að henni lokinni fá hermenn okkar heimfararleyfi til kl. 23 að Stapinn verður opnaður en við Stuðmenn hefjum leik á miðnætti. Hermenn Græna hersins eru að sjálfsögðu boðsgestir á ballið. Á laugardag er dagskráin sú sama framan af en kl. 17 verður fært sig um set og farið að Rósaselsvötnum þar sem Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, gróðursetur fyrsta tréð af þeim 3400 sem Helga Ingimundardóttir gaf Skógræktarfélagi Suðurnesja.“ Hefðbundin dagskrá hjá Stuðmönnum bæði kvöldin? „Dagskrá Stuðmanna er aldrei hefðbundin og að þessu sinni munum við flytja nýtt efni, sem samið hefur verið sérstaklega vegna þessarar yfirreiðar, í bland við gamalt og gott. Ballið á föstudag verður áfengislaust og aldurstakmarkið 16 ára og upp úr en á laugardagskvöldið verður aðeins 20 ára og eldri veittur aðgangur.“ Nú er ekki herskylda á Íslandi. Hvað þarf til að gerast fótgönguliðið í Græna hernum? „Okkur finnst málefnið því sem næst krefjast herskyldu en hægt er að skrá sig í öllum Sparisjóðum, hjá Olís, Toyota, Landssímanum, Samskipum og Íslandsflugi auk þess sem hægt að skrá sig stafrænt á alnetinu um netfangið http://www.graeniherinn.is. Vert er að geta þess að einungis 50 aðilar geta skráð sig dag hvern á hverju svæði, samtals 100 á Suðurnesjum. Þeir sem fyrstir skrá sig ganga að sjálfsögðu fyrir. Þá mun Rás 2 verða með beina útsendingu frá Keflavík og Ríkissjónvarpið sýna 20 mínútna sjónvarpsþátt hvern miðvikudag strax á eftir fréttum, samtals 13 talsins og forvitnilegt verður að sjá hvaða bæjarfélög eða landshlutar standa sig best því duglegasta landshlutanum verður ríkulega umbunað í sumarlok.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024