Grænfánanum flaggað í annað sinn í leikskólanum Gimli
Á Degi íslenskrar náttúru mánudaginn 16. september flaggaði leikskólinn Gimli Grænfánanum í annað sinn. Skólinn hlaut alþjóðlega viðurkenningu Skóla á grænni grein fyrir góða frammistöðu til sjálfbærrar þróunar og fyrir að leggja sitt af mörkum til að bæta og efla umhverfismál innan skólans og í nærsamfélaginu.
Í þetta sinn lagði skólinn áherslu á útikennslu og umhverfismennt en hafði áður unnið að endurvinnslu og flokkun sem þegar hefur fest sig í sessi.
Leikskólinn Gimli ásamt Njarðvíkurskóla, sem einnig er Grænfánaskóli, tóku í fóstur útivistarperluna Barnalund, sem staðsettur er fyrir ofan Gónhól í Innri-Njarðvík. Þar vinna skólarnir ötullega að útikennslu og uhverfismennt sem eflir og styrkir nemendur í sjálfbærni sem er einn af grunnþáttum menntunar samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla 2011.