Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Föstudagur 17. október 2003 kl. 12:29

Græna landið frumsýnt í Keflavík

Þjóðleikhúsið frumflytur nýtt verk, Græna landið, eftir Ólaf Hauk Símonarson laugardaginn 23. október 2003. Frumsýnt verður í Frumleikhúsinu í Keflavík. Leikritið er samið fyrir þau Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörgu Kjeld en auk þeirra leikur Björn Thors í sýningunni. Leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson.

Kári Sólmundarson byggingarmeistari reisti á sinni tíð hús sem teygðu sig allt upp til skýjanna. Nú situr hann einn eftir, hans nánustu eru horfnir honum, hver á sinn hátt, og jafnvel minningarnar eru að hverfa. Nema þær sárustu, þær sitja lengst eftir. Heimilishjálpin Lilja, hressileg kona á besta aldri, reynist óvæntur bandamaður og vinur. Er einhver von til að öðlast fyrirgefningu áður en allt hverfur? Áhrifamikið verk um hlutskipti þeirra sem glata minningunum löngu áður en lífið hverfur þeim.

Sem fyrr segir er verkið frumsýnt í Keflavík í Frumleikhúsinu. Við sýningarnar í Keflavík nýtur Þjóðleikhúsið samstarfs við Leikfélag Keflavíkur og Reykjanesbæ. Gert er ráð fyrir að þar verði nokkrar sýningar þannig að öllum Suðurnesjabúum gefst kostur á að sjá sýninguna þar syðra en síðan í haust mun verkið verða flutt á Litla svið Þjóðleikhússins.

Ólafur Haukur Símonarson er eitt mikilvirkasta og vinsælasta leikskáld Íslendinga en hann hefur einnig sent frá sér ljóðabækur, smásögur og skáldsögur, skrifað útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndahandrit, gefið út hljómplötur með eigin lögum og söngtextum og þýtt bækur, leikrit og kvikmyndir.

Leikrit Ólafs Hauks hafa verið sýnd víða en fyrsta leikrit hans sem tekið var til sýninga í Þjóðleikhúsinu var þríleikurinn Milli skinns og hörunds sem sýndur var árið 1984. Í kjölfarið fylgdu Bílaverkstæði Badda, Hafið, Gauragangur, Þrek og tár, Kennarar óskast og Meiri gauragangur. Síðasta verk Ólafs sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu var Viktoría og Georg, sem sýnt var á síðasta leikári. Hafið hlaut Menningarverðlaun DV 1993, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna og valið til sýningar á leiklistarhátíðinni í Bonn. Ólafur Haukur hefur skrifað handrit tveggja kvikmynda, sem báðar byggja á leikritum eftir hann, kvikmyndirnar Ryð og Hafið.

Leikendur í sýningunni eru sem fyrr segir Gunnar Eyjólfsson, Kristbjörg Kjeld og Björn Thors.

Tónlist samdi Gunnar Þórðarson, lýsingu hannaði Ásmundur Karlsson, höfundur leikmyndar er Gretar Reynisson og leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024