Græjum vandræðalega mikið magn af Dumle-sörum
Karen Lind Óladóttir er 34 ára, fædd og uppalin í Grindavík. Hún er búsett í Arendal í Noregi ásamt manninum sínum og tveimur sonum. Hún vinnur sem deildarlæknir á hjartagjörgæslu sjúkrahússins í Arendal.
Hvernig var árið 2023 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið var bara svona upp og niður eins og gengur og gerist, fullmikið niður á tímabili en það er nú bara svoleiðis stundum. Það sem stendur upp úr á góðan hátt er kannski að ég byrjaði í nýrri vinnu þar sem mér líður rosalega vel og það sem stendur upp úr hinum megin er líklegast það sem er að gerast fyrir fallega bæinn minn, Grindavík, þessa dagana.
Ert þú mikið jólabarn?
Já, ég er mikið jólabarn. Ég þarf alveg að halda aftur af mér með að spila jólalög helst bara strax í október og það er alltaf einhver svona spes stemmning í hjartanu þegar desember kemur og jólin nálgast. Bíð yfirleitt spennt eftir 1. desember svo ég geti nú loksins farið að vera í jólasokkum og jólapeysum.
Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?
Ég ólst upp við að það væri sett upp og skreytt á Þorláksmessu en eftir að ég fór að búa sjálf hefur tréð nú verið sett upp töluvert fyrr. Með einn handóðan tæplega tveggja ára á heimilinu núna hugsa ég að ég reyni að fresta því eins lengi og hægt er að setja það upp þetta árið.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Man ekki hvaða ár það var en ég hugsa að fyrstu jólin sem ég man eftir séu jólin þar sem ég náði að eyðileggja jólatréð, á einhvern hátt lét ég það detta um koll og flest jólaskrautið á því brotnaði. Hef líklegast verið bara sex eða sjö ára þegar þetta gerðist.
Það eru margar góðar jólaminningar, það standa upp úr jólin þar sem ömmur og afar hafa verið hjá okkur, það var alltaf extra notalegt.
En skemmtilegar jólahefðir?
Það hefur verið jólahefð síðustu árin að við Ólöf systir bökum saman og græjum vandræðalega mikið magn af Dumle-sörum, hún kom meira að segja í heimsókn til Noregs í fyrra svo við gætum haldið í hefðina. Þetta árið náum við ekki að baka saman svo ætli við tökum þetta ekki bara í messenger video-samtali. Svo hafa spilakvöldin með systkinum mínum einnig verið skemmtileg, mikið keppnisskap í okkur og yfirleitt að minnsta kosti einn sem fer í heiftarlega fýlu þegar hann tapar.
Með búsetu í nýju landi, langt frá fjölskyldu og vinum, er líka gaman að búa til nýjar hefðir sem munu eflaust þróast eitthvað næstu árin.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Ég hef nú aldrei verið þekkt fyrir það að vera snemma í því og er yfirleitt nánast fram á síðasta dag að græja jólagjafirnar. Þetta árið ákvað ég hins vegar að vera snemma í því og var búin að öllu í nóvember og get þess vegna notið extra mikið í desember.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Dumle-sörur, lakkrístoppar, spilakvöld, norskt jólaglögg, Harry Potter maraþon, Malt & Appelsín og hangikjöt – en það sem mér finnst langmikilvægast er samvera með fjölskyldu og vinum.
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?
Eftirminnilegasta og besta jólagjöfin sem ég hef fengið er hálsmen sem ég fékk frá strákunum mínum með þeirra upphafsstöfum og einnig stendur mamma á því. Nota það á hverjum degi og tek það aldrei af.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Ég náði mér í nýtt áhugamál árið 2023, byrjaði að hlaupa, svo nánast allar gjafir á óskalistanum eru hlaupatengdar. Mig langar í utanvegahlaupaskó og svona allskonar fatnað og aukahluti sem eru „ómissandi“ í hlaupunum.
Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?
Ég ólst upp við að það væri alltaf gæs á jólunum og nú í ár eru fyrstu jólin okkar fjölskyldunnar á eigin heimili svo ég ætla að reyna að elda gæs eftir kúnstarinnar reglum frá mömmu. Einnig ætlum við að vera með norskt „pinnekjøtt“ sem er klassískur norskur jólamatur. Ég er búin að kaupa gríðarlegt magn af Malti og Appelsíni, fá laufabrauð og hangikjöt sent frá Íslandi, svo mig grunar að við verðum í fínum málum matarlega séð.
Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?
Við fjölskyldan ætlum í helgarferð til Oslo til að kíkja á jólamarkað, fórum líka í fyrra og hugsa að þetta sé hefð sem er komin til að vera, fínt að kúpla sig aðeins út úr hversdagsleikanum og gera eitthvað skemmtilegt svona á milli vinnudaga.
Það mikilvægasta er að ég ætla að reyna að njóta með manninum mínum og börnunum eins og hægt er. Það er svo gaman að upplifa jólin í gegnum börnin sín og sjá viðbrögð við skreytingum og jólapökkum, algjörlega ómetanlegt.