Gott samstarf og stjórnun í Myllubakkaskóla
- Ný úttekt Námsmatsstofnunar fyrir menntamálaráðuneytið.
„Myllubakkaskóli kom vel afbragðsvel út úr þessari úttekt. Til að ná svona árangri þarf margt að koma til; góð stjórnun, skýr stefnumótun, sterkur kennarahópur sem er í góðu samstarfi við foreldrasamfélagið sem kann að laða fram það besta í nemendum og góður skólabragur,“ segir Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri í Reykjanesbæ. Nýverið var skólastarf í Myllubakkaskóla tekið út af Námsmatsstofnun fyrir menntamálaráðuneytið.
Markmið slíkra úttekta er að tryggja að starfsemi sé í samræði við laga og aðalnámsskrár, auka gæði náms og stuðla að umbótum í skólastarfi. Samtals voru skoðaðir 23 undirþættir og 22 af þáttunum sem skoðaðir voru metnir annað hvort sem gott eða mjög gott verklag í skólastarfi. Einungis einn þáttur var metinn þannig að úttektaraðilar töldu að einhverja þætti innan hans þyrfti að skoða sérstaklega með tilliti til úrbóta.
Úttektum af þessu tagi er ætlað að tryggja að réttindi nemenda séu virt og þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Útektinni er einnig ætlað að koma upplýsingum um skólastarfið til allra aðila skólasamfélagsins. Það sem tekið var til skoðunar var fagleg forusta, stefnumótun og skipulag, samskipti nemenda og skóla, nám og námsaðstæður, þátttaka og ábyrgð nemenda, námsaðlögun framkvæmd innra mats og umbótastarf í kjölfar innra mats.