Gott samstarf og ánægðir viðskiptavinir
Bylting með tilkomu nýrri og stærri báta.
Útgerðarfyrirtækið Einhamar Seafood var stofnað árið 2003. Stefán Kristjánsson, aðaleigandi og stjórnarformaður, var áður sjómaður og starfaði við sjómennsku með hléum frá unglingsaldri.
Líkaði ekki skrifstofuvinnan
Stefán skellti sér í nám við Fiskvinnsluskólann og síðar í viðskiptafræði. Eftir það starfaði hann á endurskoðandaskrifstofu í nokkur ár ásamt því að reka eigin bókhaldsstofu. „Honum líkaði ekki skrifstofuvinnan, sjórinn kallaði, svo að hann keypti fyrsta bátinn 2003, Cleopötru 28, 8 tonna bát, sem skýrður var Særós GK eftir dóttur okkar,“ segir Sandra Antonsdóttir, eiginkona Stefáns og annar eigenda fyrirtækisins. Stefán fékk Grétar Guðfinnsson stórkaptein í lið með sér á Særósu GK. „Þeir fiskuðu einhver ósköp, voru lengi að og yfirleitt síðastir í land. Tengdapabba honum Kristjáni Finnbogasyni varð að orði einhvern tímann þegar þeir komu inn á miðnætti með fullan bát: Strákar, þið þurfið stærri bát!“ Það var úr; Gísli Súrsson GK 8, 15 tonna bátur var sjósettur haustið 2003 og svo bættist Auður Vésteins GK 88 í flotann 2005.
Nálægðin við flugvöllin mikilvæg
Alls starfa sjötíu manns hjá fyrirtækinu. „Við hófum vinnslu á afurðum haustið 2007 en áður var allur afli seldur á fiskmarkaði. Í dag vinnum við allan okkar afla sjálf fyrir utan smáræði sem fer á fiskmarkað,“ segir Sandra. Helstu viðskiptalönd eru Bretland, Bandaríkin og Belgía, allt ferskt og með flugi. Sandra segir að staðsetning fyrirtækisins, vegna nálægðar við flugvöllinn, sé einmitt það sem viðskiptavinirnir séu svo ánægðir með. „Við seljum t.a.m. til verslunarkeðju í Bretlandi sem selur ferskan fisk í borði og svo til annars sem endurpakkar í neyslupakkningar og er seldur þannig í verslunum.“
Í sífelldri sjálfsskoðun
Fiskurinn kemur inn í hús hjá Einhamar Seafood klukkan sex á morgnana og þá hefst vinnslan. Fiskurinn er svo farinn fyrir hádegi á flutningabíl og út á flugvöll. Viðskiptavinir verslana úti fá svo fiskinn að morgni næsta dags. „Við afgreiddum 4400 tonn af fiski í fyrra og erum alltaf að reyna að betrumbæta okkur sem fyrirtæki, innan frá sem utan. Miklar og jákvæðar breytingar eru framundan hjá fyrirtækinu. Fiskvinnslan var tekin í gegn um páskana, nýtt gólf var steypt, nýtt 100 fm milliloft sett upp, starfsmannaaðstaðan var byggð upp og endurbætt, bætt við flökunarvél og krapavél og fleiru. Og svo erum við með í smíðum hjá Trefjum í Hafnarfirði tvær Cleopötrur 50, sem eru 15 metra og 30 brúttonna bátar. Þeir munu leysa af hólmi eldri báta sem hafa skilað sínu og vel það,“ segir Sandra. Til gamans nefnir Sandra að eldri bátarnir hafi skilað yfir 1000 tonnum á ári, ár eftir ár, og séu ekki nema 15 tonn að stærð. „Skipstjórar okkar til margra ára eru Haraldur Björn Björnsson, Haukur Einarsson og Óskar Sveinsson, Óskar er útgerðarstjóri í landi í dag og framkvæmdastjóri er Alda Agnes Gylfadóttir.“
Ferskleikinn mikilvægastur
Meginmarkmið fyrirtækisins segir Sandra vera ferskleika fisksins og afhendingaröryggi til viðskiptavina. „Vinnan byrjar úti á sjó. Það er svo mikið atriði að fiskurinn sé vel kældur og rétt meðhöndlaður um borð. Síðan tekur við slæging í landi, flokkun og enn meiri kæling og síðan flökun og snyrting. Strangt gæðaeftirlit er svo með afurðum frá upphafi til enda. Útgerðarmunstrið er þannig að bátarnir eru gerðir út frá Grindavík frá janúar fram í maí á vetrarvertíð og síðan frá Stöðvarfirði frá júní til desember. Viðskiptavinir okkar og umboðsaðilar sjá að við erum alltaf að reyna að bæta okkur enda mjög duglegir að heimsækja okkur og skoða fyrirtækið og aðstæður, gæðastjórar og fleiri. Gott samstarf skiptir miklu máli,“ segir Sandra.