Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gott kríuár
Sigríður Hanna Sigurðardóttir, Páll Þórðarson, Heiðrún Pálsdóttir og Marlaug, fimm mánaða dóttir hennar.
Sunnudagur 15. ágúst 2021 kl. 15:22

Gott kríuár

og þúsundir unga komust á legg í sumar

„Þetta gekk alveg rosalega vel og það eru mörg ár síðan það var svona gott kríuár og þúsundir unga hafa komist upp í ár,“ segir Sigríður Hanna Sigurðardóttir, húsfreyja og æðarbóndi í Norðurkoti II þar sem eitt stærsta kríuvarp landsins er í túnfætinum. Þar annast hún einnig æðarvarp ásamt bónda sínum, Páli Þórðarsyni, og hefur gert í 21 ár.

– Hefur þú einhverja tilfinningu fyrir því hver ástæðan er fyrir góðum árangri hjá kríunni?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er enginn vísindamaður en það var enginn makríll í vor og spurning hvort sílið hafi verið tilbúið fyrir kríuna og æðarfuglinn.“

– Þú sérð kríuna fljúga hér framhjá með sandsílið í kjaftinum handa ungunum?

„Já, það er alveg hellingur af sandsíli, flottu síli í öllum stærðum og ég tel að það sé ástæðan að það sé nóg af síli.“

Krían er yfirleitt kominn á varpstöðvarnar við Norðurkot í byrjun maí og byrjar svo að verpa upp úr mánaðarmótum maí og júní. Varpið gekk vel í ár og nú er krían að undirbúa brottför til vetrarstöðva nærri suðurskautinu.

„Krían er farinn að safnast hér niður í fjöru og ungarnir eru orðnir fleygir. Einn daginn er stór hópur farinn og næstu daga þá hverfur hún alveg,“ segir Sigríður Hanna.

Það vekur athygli blaðamanns að á þjóðveginum sem liggur í gegnum varplandið er talsvert af dauðum kríuungum. Húsfreyjan í Norðurkoti segir að mikil umferð sé um veginn en nær allir fari varlega og keyri hægt. Það sé undantekning ef ekið sé of hratt í gegnum varplandið.

„Allir fara mjög varlega og maður sér fólk fara út úr bílum og labba á undan til að reka ungana af veginum og ökumenn fara mjög varlega hér í gegn. Það eru þúsundir af ungum sem koma upp og þeir fara upp á veg. Þeir eru kjánar sem hafa ekki lært að fljúga rétt, fljúga undir bílana og kunna ekki að passa sig. Hraðinn er ekki mikill hérna nema einn og einn sem fer ekki varlega. Það er ekki hraðanum á bílunum að kenna að þeir drepast.“

– Hvers vegna sækir fuglinn í veginn?

„Ég veit ekkert um það en það er sagt að það sé hitinn í malbikinu.“

Sigríður Hanna segir að síðustu ár hafi lítið af unga komið upp og þá eru færri fuglar á veginum en ef fólk myndi labba út fyrir veginn þá myndi það ekki þverfóta fyrir dauðum ungum úti í móa sem hafa dáið úr hungri þegar ekkert síli var í boði. Núna kemst allur þessi fjöldi á legg og þá sjást fleiri fuglar á veginum. „Og þetta eru ekki margir dauðir ungar miðað við allan þann fjölda sem nú er búið að komast upp af ungum,“ segir Sigríður Hanna.

– Krían setur mikinn svip á þetta svæði hér við Norðurkot.

„Hún gerir það og fólk kemur keyrandi hérna gagngert til að fylgjast með kríunni og það er bara gaman.“

Ábúendur í Norðurkoti hafa verið með æðarvarp í áratugi og það gekk mjög vel í vor. Fuglinn kom snemma í varp og var vel haldinn. Kollan er þannig að hún byrjar ekki að verpa fyrr en hún hefur byggt upp forða fyrir sig. Hún kom vel inn í vor og var búin að verpa öllum eggjum mjög snemma og kláraði sitt varp snemma. Kollan hafði gott æti áður en hún kom í land.

Krían við Norðurkot hefur verið rannsóknarefni í mörg ár. Páll Steingrímsson, kvikmyndagerðarmaður, gerði kvikmynd um kríuna og fylgdi henni eftir á ferðalagi sínu póla á milli ef svo má segja en krían flýgur á ævi sinni sem nemur þremur og hálfri ferð milli jarðarinnar og tunglsins. Þá hafa vísindamenn unnið að umfangsmikilli rannsókn síðustu þrjú ár á kríunni við Norðurkot, m.a. hafa verið fest senditæki á fuglana sem skrá allar ferðir kríunnar, hvernig hún hegðar sér í sumardvölinni við Norðurkot og hvernig ferðalagið er milli Íslands og suðurskautsins. Þannig hefur kría skilað sér aftur í Norðurkot sem flaug héðan og niður með Afríku og í átt að suðurskautinu, til Ástralíu, aftur að suðurskautinu og svo til Íslands. Kríurnar sem verpa við Norðurkot eru síðan að fljúga um 100 kílómetra á dag þegar þær sækja æti í hafið allt um kring.