Gott grín - gott málefni
Uppistand í Reykjanesbæ
Uppistandarinn Paul Myrehaug mun troða upp á Paddy´s í Keflavík laugardaginn 23. nóvember n.k., en Paddy´s verður síðasta stoppið áður en hann heldur áfram til Kanada á gömlu heimaslóðirnar. Helmingurinn af öllum seldum miðum á uppistandinu fer til Barnaspítala Hringsins.
Það er íslenski uppistandarinn Rökkvi Vésteinsson sem stendur að baki Iceland Comedy Festival, annað árið í röð núna. Hann segir að Paul sé um það bil eins góður og uppistandari geti orðið sem ekki er þegar orðinn heimsfrægur. „Ég hlakka til að koma með hann á Paddy´s,“ segir Rökkvi „Ég átti frábært uppistand þar 2011 og veit að þetta er kjörinn staður til að grínast á. Paul á ótrúlegan feril að baki og vann meðal annars Great Canadian Laugh off keppnina, sem er ein stærsta uppistandskeppni sem fyrirfinnst. Það eru forréttindi að fá svona grínista til mín og gaman að geta boðið Íslendingum upp á uppistand í þessum gæðaflokki.“
Rökkvi segist gjarnan vilja byggja upp meiri hefð fyrir uppistandi, ekki bara á Íslandi yfir höfuð, heldur
líka á stöðum eins og Reykjanesbæ. „Ég held að það sé oft litið framhjá stöðum utan höfuðborgarsvæðisins, en mér finnst fátt betra en að skemmta utan Reykjavíkur,“ bætir hann við.
Uppistand Pauls er yfirvegað en glettið. Með djúpri röddu leiðir hann áhorfendur gegnum fáránleika þess sem hefur orðið á vegi hans í ferðalögum hans um heiminn auk þess sem grófara grínið er oft ekki langt undan.