Gott frelsi frá hversdagsleikanum
Smiðurinn Róbert Fisher býr til ljósker úr efni sem þolir vel íslenska veðráttu.
Keflvíkingurinn Róbert Fisher dó ekki ráðalaus þegar verkefnum hjá honum sem smið fækkaði eftir hrun. Hann hefur smám saman þróað og útbúið ljósker og skartgripastanda sem minna á stuðlaberg. Hann segir sköpunina gefa sér gott frelsi frá hversdagsleikanum.
Tvær af gerðum hringastanda.
„Eftir hrun var minna að gera hjá mér í smíðunum. Á leiðinni heim eftir smá dvöl í Bandaríkjunum fletti ég tímariti um borð í flugvél og hugsaði með mér hvort ekki væri hægt að flytja út eitthvað til að selja. Ég prófaði mig áfram og ekkert varð úr því en ég stofnaði fyrirtæki í því ferli og lærði heilmikið,“ segir Róbert Fisher, smiður og þúsund þjala smiður í Keflavík. Hann lét í framhaldinu reyna á innflutning og flutti inn timburúr og vantaði útstillingarefni undir úrin. „Ég fór að hugsa í andstæðum, um timbur og grjót. Á leið minni að Meðalfellsvatni, þar sem ég var að fara að glerja sumarbústað, flaug mér í hug stuðlaberg. Ég hringdi í konuna mína og sagði henni frá hugmyndinni og hún hló að mér. Hef fengið margar skrýtnar hugmyndir og hún er vön að hlæja að mér,“ segir Róbert og hlær. Hann fór á hugarflug með hvernig hann gæti fari að því að búa til stuðlaberg. „Ég náði mér í silicon í BYKO og sprautaði því í fötu með sápu í og gat þannig mótað silconið. Lét svo búa til sexstrending úr timbri og siliconklæddi hann og leyfði því að þorna. Þá tók ég timbrið úr og var kominn með steypumót fyrir fyrsta sexstrendinginn. Tók þá nokkra og límdi saman. Konunni fannst þetta svo flott að hún notaði það undir hringana sína við vaskinn inni á baði,“ segir Róbert.
Kerin í bígerð.
Tilbúin eru kerin falleg sem útiljós.
Sama efni og í brúarmannvirkjum
Komið er ár síðan þróunarvinnan hófst og eitt hefur leitt af öðru. Róbert vildi finna réttu samsetninguna og að hún myndi þola íslenska veðurfarið. „Blandan sem ég nota nefnist EXM703 og er keypt í Múrbúðinni. Það er frostþolin þansteypa sem notuð er í brúarmannvirki og undir vélasamstæður á stórum verkstæðum og álverum. Þetta er alvöru!“ segir Róbert og bætir við að eftir að steypun er lokið setji hann glæru, sem sett er á bílaplön, yfir til að fá svona „wet look“ áferð. Ljóskerin segist hann steypa eftir skapi sínu hverju sinni. „Ég er með ker undir sprittkerti og einnig blómapott. Nú stefni ég á að nota blómapottinn á þann hátt að hann sé blómapottur á sumrin en ljósker á veturna. Þá set ég mót úr járni ofan í. Ég ræddi þetta við blikksmið og hann er að útbúa slíkt fyrir mig.“ Einnig lét Róbert útbúa krossana eftir pælingar með að skreyta fyrir leiði og er að skoða annars konar skraut, eins og engil eða stjörnumerki. „Svo er ég að íhuga að setja einnig led-ljós í þetta og þá er hægt að vera með ljósin úti á palli til lýsingar. Svo nota ég sýruþvegið gler (í stað sandblásins) því húðfita festist ekki á því,“ segir Róbert.
Einnig falleg sem blómaker.
Kerin komin víða um land
Að sögn Róberts gefa glerin á kerjunum ágætt skjól. „Það hefur ekki slokknað á þessu við húsið hjá okkur en það getur veið sniðugt að vera með rafljós á leiðum. Fyrirspurnir um kerin hafa ekki verið margar ennþá en þó hef ég selt eitthvað. Það eru ker í Vestmannaeyjum, á Akureyri, Kirkjubæjarklaustri og víða hér á svæðinu og í sumarbústöðum á landinu og eitt er á leiðinni á Stöðvafjörð.“ Róbert er borinn og barnfæddur Keflvíkingur en hef búið erlendis hluta af ævinni, sjö ti átta ár. Hann er í sambúð með Bryndísi Lúðvíksdóttur og á tvær dætur, Anítu Lind og Sonju Bjarneyju. Þau búa í húsi við Vallargötu í Reykjanesbæ, sem byggt var 1934, og þau hafa höfum mikið endurnýjað það. „Konan mín og vinkonur hennar hafa hvatt mig til að koma mér áfram og ég sló því til. Ég er líka alltaf með hugann opinn fyrir nýjungum. Er svona leitandi persóna. Ég verð örugglega í einhverri sköpun í framtíðinni. Þetta er svo gott frelsi frá hversdagseikanum,“ segir Róbert, sem útbúið hefur Facebook síðu undir nafninu Stuðlaberg.
Vinaleg aðstaðan í birtu.
Aðstaðan að kvöldi til.