Gott að upplifa aðra menningu og stíga út fyrir þægindrammann
- Dína María segir það skemmtilega upplifun að búa erlendis
Dína María Margeirsdóttir býr í Kaliforníu þar sem hún starfar sem verkefnastjóri. Hún segir tækifærin á atvinnumarkaðnum úti mun betri en á Íslandi en saknar þó vina og fjölskyldu. Henni finnst loftslagið í Kaliforníu mjög gott og eru ferðalög stór hluti af hennar vinnu. Við spjölluðum aðeins við Dínu Maríu og fengum hana til að svara nokkrum spurningum um lífið í Kaliforníu.
Hvað ert þú að gera úti í Kaliforníu?
Ég vinn fyrir Charles River Development sem býður uppá fjárfestingastjórnunarkerfi. Ég er verkefnastjóri og hjálpa viðskiptavinum að uppfæra kerfið eða setja það upp í fyrsta sinn. Í því felst vinna með öllum deildum viðskiptavinarins sem koma að þessu, eins og sjóðsstjórum, verðbréfasölum, fjármálaráðgjöfum, tæknideildum o.s.frv.
Hvað hefur þú búið lengi í Kaliforníu?
Ég hef búið hérna í sjö ár.
Hvað heillar mest úti?
Tækifærin á atvinnumarkaðnum. Hér er að finna margs konar störf hjá mjög mismunandi fyrirtækjum í stærð og geira. Á þessu svæði er einnig hægt að sækja margbreytilega afþreyingu. Ég get farið á skíði í Tahoe sem er þriggja tíma keyrsla, smakkað rauðvín í Napa sem er klukkutíma í burtu, skellt mér til stórborgarinna San Francisco á þrjátíu mínútum og farið á ströndina í Santa Cruz eða sunnar á 90 níutíu mínútum.
Saknar þú einhvers á Íslandi?
Ég sakna vina og fjölskyldu mest og kannski þess hversu auðvelt aðgengið er að fólkinu sem er mér næst. Hérna þarf að skipuleggja heimsóknir mun meira en maður gerir á Íslandi. Það væri líka rosalega gott ef ég gæti fengið pulsu aðeins oftar.
Hver er helsti munurinn á Íslandi og Kaliforníu að þínu mati?
Þægilegra loftslag er ekki hægt að biðja um. Það er hvorki of heitt né kalt.
Getur þú lýst vikunni þinni?
Ég vinn annars vegar að heiman eða hjá viðskiptavininum. Þegar ég er að vinna að heiman er ég yfirleitt vöknuð mjög snemma þar sem að ég er mætt á fundi klukkan fimm á morgnana því ég vinn á austurstrandartíma. Ég byrja á því að búa mér til kaffi og sest svo fyrir framan tölvuna. Allir fundirnir fara fram á netinu og ég er mest megnis í símanum og tölvunni allan daginn. Ég reyni eins og ég get að komast í ræktina og svo þegar eiginmaðurinn kemur heim úr vinnunni borðum við saman kvöldmat. Ef ég er að ferðast þá fer ég upp á flugvöll á mánudagsmorgni. Undanfarið hef ég verið að fljúga til St. Louis til að sinna kúnna þar og er ég mætt þangað um kvöldmatarleytið. Svo flýg ég yfirleitt heim á fimmtudögum eftir vinnudaginn. Um helgar reyni ég að fara í hjólatúr með vinkonum mínum og svo finnst okkur hjónunum mjög gaman að fara í bíó og hitta vini.
Mælir þú með því að fólk búi erlendis?
Já, ég mæli með því. Þetta hefur verið frábær reynsla og rosalega skemmtileg upplifun. Held að það sé gott að upplifa aðra menningu og stíga aðeins út fyrir þægindarammann. Að vera í enskumælandi landi er mjög þægilegt og einfaldar hlutina verulega. Ég bjó á Spáni í hálft ár og átti í algjöru basli með tungumálið en ég myndi ekki hika við að gera það aftur.