Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gott að halda tónleika í kirkjum
Mánudagur 16. apríl 2007 kl. 14:17

Gott að halda tónleika í kirkjum

-Spjallað við Stebba og Eyfa sem leika í Keflavíkurkirkju í kvöld-

Þið félagarnir eruð augljóslega að fylgja eftir frábærum geisladiski sem kom út sl. haust og hafið farið víða um landið. Hvað gefur það ykkur að fara út á landi að spila og hvernig hefur aðsóknin verið?
„Jú, kveikjan að þessari tónleikaferð er vissulega nýi geisladiskurinn „Nokkrar notalegar ábreiður“, en svo er einnig það, að við Stebbi höfum aldrei farið svona túr áður, þar sem við heimsækjum skipulega kaupstaði og kauptún landsins. Þetta finnst okkur vera mjög gefandi og skemmtilegt, stemmning hefur verið gífurlega góð og mæting með miklum ágætum.“
 
Nú hafið þið verið félagar lengi, hvernig stóð á því að þið hafið ekki gefið saman út efni og hvernig stóð á því að það kom að því núna?
„Þrátt fyrir að við höfum lengi spilað og unnið saman, þá hefur það samstarf alltaf verið hálfgert hliðarverkefni á okkar ferli, ég hef sinnt mínum sólóferli og gefið út einar 6 sólóplötur og Stebbi hefur náttúrulega sett mest af sínum kröftum í Sálina, en samt hefur okkar samstarf ágerst soldið upp á síðkastið og því fannst okkur tími kominn til að senda frá okkur efni.“
 
Hvaða efni bjóðið þið upp á, á þessum tónleikum?
„Við erum náttúrulega að kynna nýja diskinn, en að sjálfsögðu vitum við að fólk kemur til að hlusta á gömlu lögin líka og jafnvel syngja með einnig. Við förum í gegnum feril okkar beggja á þessum tónleikum, enda eru þetta ríflega tveir tímar, þegar upp er staðið. Lög eins og „Nína“, „Álfheiður Björk“, „Líf“, „Í fylgsnum hjartans“, „Dagar“, „Ég lifi í draumi“, „Hjá þér“, og mörg fleiri hljóma að sjálfsögðu þarna líka.“
 
Þið hafið verið í nokkrum kirkjum, hvernig stendur á því, trúaðir eða góður hljómur?
„Það er ákaflega gott að halda tónleika í kirkjum, bæði er hlustun og hljómur með miklum ágætum og okkur hefur einnig liðið mjög vel með að flytja þetta efni í kirkjum landsins. Ég efast heldur ekki um að nálægðin við almættið hafi góð áhrif, bæði á flytjendur og þá sem áheyra og horfa.“
 
Þið hljótið að vera spenntir að mæta í bítlabæinn. Má Rúnni Júll koma og taka eitt  lag með ykkur?
„Satt að segja erum við mjög spenntir að halda tónleika í Keflavík, eins og við köllum hana nú ennþá!! Við höfum tveir saman ekki spilað svona tónleika þar oft. Við vorum með uppákomu á jólahlaðborði í Stapanum fyrir síðustu jól og vorum mjög ánægðir með stemmninguna, sem myndaðist þá, vonum að hún verði til staðar líka á mánudagskvöldið. Rúnar Júlíusson er alltaf velkominn upp á svið með okkur Stebba, það yrði bara heiður fyrir okkur.“

Eru þetta vetrar- eða vortónleikaröð, eitthvað meira síðar?
„Þetta er fyrri hluti tónleikaferðar, sem við Stebbi erum á núna, við ljúkum þessum hluta ferðarinnar í maí, en tökum svo upp þráðinn aftur í haust, eða lok ágúst og heimsækjum þá Vestfirði, Austfirði og þá staði, sem hafa orðið útundan í fyrri hlutanum. Við munum einnig heimsækja nokkra staði í sumar og má þar nefna m.a. Grímsey og Hrísey.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024