Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gott að hafa verið sjálf á verbúð
Kristín Júlla Kristjánsdóttir ætlaði ekki að verða árshátíðarsminka og er orðin þekktur gervahönnuður.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 8. janúar 2022 kl. 07:28

Gott að hafa verið sjálf á verbúð

Kristín Júlla Kristjánsdóttir, er gervahönnuður í tveimur vinsælustu sjónvarpsseríum sem sýndar eru á RÚV og Stöð 2

„Ég bý að reynslu frá því þegar ég var yngri því ég var sjálf á verbúð á Siglufirði og svo vann ég í fiski í mínu heimaplássi, Garðinum, á þessum árum. Ég átti fullt af ljósmyndum frá þessum tíma sem ég studdist við og skoðaði hár og útlit fólks. Svo var ég líka pönkari á þessum tíma. Ég var því á heimavelli þegar ég fór að vinna gervahönnun á Verbúðinni,“ segir Kristín Júlla, gervahönnuður. Hún sá um gervavinnu í tveimur sjónvarpsseríum sem eru heitasta sjónvarpsefnið á stóru stöðvunum þessar vikurnar, Verbúðin á RÚV og Svörtu sandar á Stöð 2.

Kristín er þekkt í kvikmyndaiðnaðinum og hefur komið að vinnu margra bíómynda og sjónvarpsþátta á undanförnum árum. Hefur m.a. hlotið Edduverðlaun í þrígang fyrir sína vinnu. Þættirnir Verbúðin og Svörtu sandar hafa vakið athygli en báðar seríurnar voru frumsýndar um jólin og sú fyrrnefnda gerist á níunda áratug síðustu aldar. Útlit og gervi leikara í þáttunum hafa vakið athygli. „Ég á margar fyrirmyndir úr verbúðarlífi á Siglufirði og fiskvinnu í Garðinum. Ég fletti blöðum á netinu frá þessum tíma, m.a. Víkurfréttum til að rifja þetta enn betur upp hvernig fólk leit út á þessum tíma. Þetta er algerlega geggjaður tími fyrir gamla pönkpíu eins og mig. Verkefni gervahönnuðar er að sjá um förðun og hár leikara. Þá koma til sögunnar hárkollur og gleraugu. Ég á stóra plastkassa fulla af gleraugum sem ég hef safnað í gegnum tíðina. Ég kaupi öll gömul gleraugu sem koma í Fjölsmiðjuna í Keflavík, læt bara skipta um glerið og þá eru þau klár í notkun í næstu mynd eða þætti. Í Verbúðinni kom gleraugnasafnið að góðum notum og öll gleraugu í þáttunum eru úr því,“ segir Kristín en útlit leikara og umgjörð leikmyndar í þáttunum hefur vakið athygli. Meðal þess sem Kristín þurfti að gera var að slétta krullað hár Sveppa sem m.a. missir hálfa höndina í hausavél í frystihúsinu. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sár og áverkar í Svörtum söndum

Í þáttunum Svörtu söndum sem sýndir eru á Stöð 2 er allt annað umhverfi en fiskvinnsla og fjör frá níunda áratugnum. Í öllum þáttum eða myndum eru þó persónur með sinn karakter og það er hlutverk leikstjóra og viðkomandi leikara með gervahönnuði og búningahönnuði að skapa viðkomandi persónu. „Við ræðum saman um hverja einustu persónu, brjótum niður handritið senu fyrir senu. Í Svörtu söndum voru ýmsar áskoranir, allt aðrar en í Verbúðinni. Þar er einn aðalleikaranna til dæmis með stórt ör á annarri kinninni og í þáttunum sjást mörg sár og áverkar sem mikill tími fer í að gera. Það er hellings blóð í þessari seríu sem var gaman að koma að. Ég hef unnið mikið með Baldvin Z, leikstjóra, og gengið vel og sömu sögu er að segja um leikstjórana og aðalleikarana í Verbúðinni, þá Gísla Örn Garðarsson og Björn Hlyn Haraldsson. Þetta fólk er allt miklir vinir mínir enda er nándin mikil í okkar störfum. Við erum ein stór fjölskylda,“ segir Kristín og aðspurð segir hún að Verbúðin fari án efa ofarlega á lista yfir skemmtilegustu verkefni sem hún hefur unnið við. 

Rauð hárkolla og freknur

Gervi leikara hafa oft í gegnum tíðina vakið athygli. Fyrir fimm árum var Kristín tvær til þrjár klukkustundir á hverjum tökudegi að vinna við gervi Þorsteins Bachmans sem lék Móra í myndinni Vonarstræti. Í myndinni Dýrið sem var frumsýnd nýlega fór hún til dæmis með aðalleikkonunni Noomi Rapace til London til að hanna á hana hárkollu. „Við fórum saman í þekkta „hárkollugerð“ sem m.a hefur gert hárkollur í Lord of the Rings og létum gera hárkollu á hana. Venjulega mæli ég höfuð leikarans hér heima en það var gert þarna úti, við vildum hafa hana með sítt rautt hár og svo passaði vel að hafa hana freknótta við rauða hárið. Noomi var svo ánægð með freknurnar að núna vill hún alltaf vera með freknur,“ segir Kristín og hlær. Dýrið hefur hlotið mikið lof en myndin er sérstök og gerist í sveit norður í landi. 

Kristín segir að hluti af hennar vinnu sé mikið skipulag og hún er með handritið í spjaldtölvu og þarf að skrá hlutina nákvæmlega svo allt gangi upp. „Þetta er mikil skipulagsvinna. Við erum kannski marga daga í tökum sem fara fram á baðherbergi inni í húsi. Svo er útitakan á allt öðrum stað kannski mánuði seinna og þá þarf útlit leikaranna að vera eins því tökurnar eru ekki „línulegar“. Í Verbúðinni voru til dæmis innitökur í Reykjavík en annað tekið á Vestfjörðum.“

Ekki árshátíðarsminka

Kristín byrjaði  fyrir tuttugu árum, þá 34 ára, að vinna við hár og förðun í auglýsingum og fyrir tónlistarmyndbönd. Hún fór á förðunarnámskeið hjá No Name en skellti sér svo út í djúpu laugina og var komin stuttu síðar í vinnu við kvikmyndir og sjónvarp. „Ég ætlaði ekki að verða árshátíðarsminka,“ segir hún og hlær. „Ég vildi komast lengra. Eitt leiddi af öðru og ég var komin í þessa skemmtilegu vinnu ekki löngu síðar.“ Verkefnin hafa síðan ekki látið á sér standa og Kristín Júlla er orðin þekkt í bransanum. Aðspurð segir hún mikla breytingu hafa orðið í kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum, myndgæðin séu til dæmis orðin miklu meiri. Því þurfi að huga vel að því þegar unnið er við gervi leikara. Smáatriði sjáist mun betur núna og því þurfi að vanda til verka. Þá sé tíminn aldrei nægur og því þurfi þrátt fyrir allt að láta hlutina ganga hratt og vel. „Það geti þó verið erfitt því það getur tekið marga klukkutíma að gera sár á manneskju,“ segir Kristín.

Gerði Garðinn frægan

Konan sem hefur gert „Garðinn frægan“ eftir að hafa lært förðun þegar hún var komin á fertugsaldurinn er núna í smá hvíld eftir stór verkefni að undanförnu. „Ég var að afþakka vinnu í bíómynd því ég vildi aðeins lengra frí. Það eru alltaf næg verkefni og þau koma þó maður geti ekki tekið þau öll. Ég hef ekki áhyggjur af því. Núna er hugurinn aðeins í öðru því við erum að byggja hús í Garðinum á frábærum útsýnisstað og ég þarf að hanna húsið að innan sem er orðið fokhelt,“ segir Kristín Júlla.

Vildi skapa manneskjur

Kristín Júlla var í viðtali í Víkur-fréttum árið 2015 þar sem hún var spurð út í vinnu sína. Grípum hér inn í viðtalið:

Í æsku fannst Kristínu Júllu gaman að fara í hlutverkaleiki og hún telur að áhugi á persónusköpun hafi jafnvel byrjað þá. „Þetta var samt ekki eitthvað sem ég ætlaði mér að gera í framtíðinni. Ég var orðin 34 ára þegar ég skráði mig fyrir algjöra tilviljun í förðunarskóla No name, bara af því að ég var leið og langaði að læra eitthvað. Fékk svo einhverja bakþanka og vildi hætta við en skólastjórinn Kristín Stefánsdóttir bannaði mér það því hún vildi endilega fá fleiri eldri nemendur. Fólkinu í kringum mig fannst ég reyndar eitthvað vera að klikkast því ég var ekki þekkt fyrir það að vera mikið máluð. Mamma hvatti mig óspart til að láta á reyna,“ segir Kristín Júlla og bætir við að námið hafi verið mjög skemmtilegt. „Ég gerði þó allt öðruvísi en aðrir; gat aldrei hlýtt kennaranum. Hef alltaf farið mínar eigin leiðir. Ég fór t.d. ekki í námið til að vera heima og gera árshátíðarfarðanir. Það kom aldrei til greina. Ég ætlaði mér að skapa manneskjur.“ Þegar hún útskrifaðist bauð hún Kvikmyndaskóla Íslands upp á fría vinnu fyrir lokaverkefni, sem urðu þrjú. „Þar með var ég komin inn í bransann. Ég lenti á frábærum hópi í kvikmyndaskólanum sem útskrifaðist sama vor og það fólk fór allt í mikilvæg störf í bransanum. Ég fór svo bara að vinna með þeim.“

Kristín Júlla hefur fengið tvenn Edduverðlaun og fleiri viðurkenningar.



Kristín með Baldvin Z leikstjóra sem hún hefur unnið mikið með.