Gott að búa í smá sveit
Það er svo mikið sönglíf á Suðurnesjum. Búið er að endurvekja kirkjukór í Útskálaprestakalli
Búið er að endurvekja kirkjukór í Útskálaprestakalli sem Keith Reed stjórnar. Nýi kirkjukórinn kom fram á aðventutónleikum í Safnaðarheimili Sandgerðis og vakti lukku á meðal áheyrenda með líflegum flutningi sínum. Við forvitnuðumst aðeins um kórstjórnandann sem er sprenglærður innan tónlistar og spjölluðum saman á íslensku en Keith segist hafa lagt sig fram um það frá upphafi að læra málið sem Íslendingar tala.
Var á leið til Evrópu
„Ég kom til Íslands árið 1989 með konu minni, Ástu Bryndísi Schram, sem ég hafði kynnst í þekktum tónlistarskóla í Bloomington í Indiana. Hún hafði verið í námi í sama tónlistarskóla og ég. Ég er baritón, var komin með sönggráðu eftir fjögurra ára nám og ætlaði að freista gæfunnar í Evrópu að námi loknu. Hún var þá félagsfræðingur sem ætlaði að nota tónlistarmenntun sína með börnum. Ég kom við á Íslandi til að hitta foreldra hennar á leið minni til Evrópu en þessi heimsókn var svo sannarlega örlagarík. Allt breyttist. Ég fékk leyfi til að æfa mig í Söngskólanum í Reykjavík og var að hita upp röddina mína þegar Garðar Cortes heyrir í mér fram á gang, opnar dyrnar, kemur inn og spyr: „Hver ert þú?“ Hann spurði mig strax hvort ég vildi starfa við Óperuna á Íslandi en þegar ég sagði honum að ég væri á leið til Evrópu til að freista gæfunnar sagði hann mér að koma aftur ef ég fengi ekkert að gera þar. Hann vissi mætavel að það væri mjög erfitt að komast að í Evrópu. Garðar hafði rétt fyrir sér og ég sneri aftur til Íslands og hef verið hér síðan má segja. Garðar réði mig í Brúðkaup Fígarós og þar söng ég ásamt honum og Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Ég hef verið svo heppinn allar götur síðan. Þetta var gæfuspor. Í dag eigum við hjónin fimm börn saman og búum í Garðinum,“ segir Keith hressilega. Honum finnst hann ótrúlega heppinn að hafa fengið að kynnast öllu þessu góða og hæfileikaríka fólki í óperuheiminum á Íslandi.
Starfaði með þekktu fólki innan tónlistar
„Ég starfaði með Jórunni Viðar og Jóni Ásgeirssyni. Þuríður Pálsdóttir var einnig að kenna á þessum tíma sem ég kenndi en ég var í Tónlistarskólanum Reykjavík, Söngskólanum og Nýja tónlistarskólanum. Það er mikill heiður að hafa fengið að vera samferða þessu góða fólki af þeirri glæsilegu kynslóð. Ég lærði margt af þeim. Eitt sinn þegar ég var að bíða eftir konu minni fyrir utan tónlistarskólann þá gekk Jórunn Viðar píanókennari framhjá og spurði hvað ég væri að gera. Ég sagðist vera að bíða eftir konan mín en þá svaraði hún og sagði: „Nei, þú ert að bíða eftir konunni þinni.“ Þá áttaði ég mig á því að íslenska væri svo stórkostlegt tungumál en Jórunn Viðar sagði þetta svo blíðlega og með glampa í augum. Hún var alls ekki að skamma mig heldur varð þessi athugasemd hennar til þess að ég vildi æfa mig betur í að beygja íslensku. Ég vil tala rétta íslensku og fólk má alveg leiðrétta mig. Stundum fer fólk í að tala ensku við mig en það vil ég ekki. Ég legg mig fram og vil tala íslensku. Þetta er svo stórkostlegt tungumál. Það er líka svo skemmtilegt að beygja íslensku rétt, sem er mjög mikil áskorun fyrir mig. Ég lít á þetta sem leik og mæti til leiks spenntur hvern dag sem ég tala íslensku og langar að standa mig vel,“ segir Keith og blaðamaður uppgötvar alveg nýtt sjónarhorn útlendings á íslenskri tungu og ímyndar sér að kannski væri hægt að búa til keppni í sjónvarpinu um beygingar og íslenska málfræði. Annars lítur Keith á sig sem Íslending. Honum finnst hann ekki vera lengur útlendingur hérna og finnst fátt skemmtilegra en að koma aftur heim til Íslands eftir ferðalög í útlöndum.
„Ég tel mig Íslending núna. Þegar ég kem með Icelandair-flugvél til Íslands og þau segja í hátalarakerfið: „Velkomin heim,“ þá finnst mér ég líka vera kominn heim. Hér á ég heima. Þetta er góður siður sem maður heyrir hvergi annars staðar hjá neinu flugfélagi. Svo flott,“ segir Keith hlýlega.
Hvers vegna Garður?
„Ja sko, það er vegna þess að okkur langar að búa í rólegu umhverfi og vera í smá sveit, samt ekki of langt frá höfuðborginni. Hérna er mjög gott að búa og fólkið er vingjarnlegt. Vegna starfs míns sem óperusöngvari þá höfum við átt heima á mörgum stöðum í gegnum árin og mjög oft erlendis. Í dag er ég kominn með fast starf sem organisti og kórstjórnandi í Ástjarnarkirkju. Við bjuggum nokkur ár í Evrópu, í Kópavogi og einnig á Egilsstöðum. Við fórum svo aftur til Bandaríkjanna og bjuggum þar þegar Ásta, konan mín, fór út í doktorsnám í námssálarfræði. Eftir þessa námsdvöl þá langaði okkur ekki að búa aftur í borg og leituðum út fyrir Reykjavík árið 2017. Garðurinn varð fyrir valinu en við störfum bæði innfrá, ég í Hafnarfirði og Ásta er lektor og kennsluþróunarstjóri við Heilbrigðisvísindasvið HÍ. Við keyrum Reykjanesbrautina sem er alltaf vel hugsað um vegna flugstöðvarinnar, það er mjög gott og hjálpaði okkur einnig að velja góðan stað til að búa á. Nú erum við komin heim.“
Mikið sönglíf á Suðurnesjum
Keith er búinn að stofna kirkjukór í Útskálaprestakalli en hann er einnig með Kvennakór Kópavogs og Ljósbrot, sem er kvennakór KFUM og K.
„Það er svo mikið sönglíf á Suðurnesjum og það finnst mér frábært. Ég vildi leggja mitt af mörkum og stofnaði kirkjukór í Sandgerði og Garði því það gerir messuna miklu líflegri. Í kórnum er fólk sem hefur gaman af því að syngja. Ég kenni þeim í leiðinni öndun, raddbeitingu og hlustun en allt er þetta einnig mikilvægt í lífinu. Ég þekki íslensku þjóðina og lögin sem þjóðinni þykir vænt um. Við æfum þetta en svo kem ég með ný áhrif inn, það er það sem útlendingar gera stundum. Þeir eru að hafa áhrif á samfélagið en auðvitað þurfa útlendingar að virða hefðir Íslendinga. Við erum öll að læra hvert af öðru. Fólk uppgötvar sig sjálft þegar það syngur. Tónlist er lykill að því að opna fólk í gegnum hjartað. Mér finnst fólk mjög dýrmætt og í Garðinum finnst mér fólk hafa meiri tíma fyrir fólk. Það er svo gaman að kynnast nýju fólki. Allir hafa áhrif á hvern annan. Samvera með öðrum er það sem gefur lífinu gildi. Maður verður aldrei eins eftir að hafa kynnst einhverjum nýjum. Fólk sem maður vissi ekki einu sinni að væri til hér á jörðunni, svo allt í einu kynnist maður því og það finnst mér svo gaman,“ segir Keith í einlægni og hvetur alla sem vilja vera með að mæta á æfingar á nýju ári í kirkjukórnum í Útskálaprestakalli sem æfir einu sinni í viku, á mánudagskvöldum klukkan 19:00 í Safnaðarheimili Sandgerðis. Það er bara að mæta.
Keith ásamt fjölskyldu.