Gosling á síðustu dropunum að skutla Mendez
Hollywood-stjarnan Ryan Gosling hefur dvalið á Íslandi meira og minna í allt sumar. Kanadíski leikarinn góðkunni hefur verið víða á ferð og flugi, en nú í morgun sást til kauða við Fitjar í Njarðvík þar sem hann hugðist setja eldsneyti á bílinn sinn hjá Orkunni.
Valur Margeirsson eigandi Orkunnar að Fitjum hitti Gosling og aðstoðaði hann við að fylla bílinn. Leikarinn var á hraðferð en hann var að keyra Evu Mendez unnustu sína í flug. Þrátt fyrir það gaf Gosling sér tíma til að spjalla við Val á bensínstöðinni og stilli sér líka upp í myndatöku með honum. Valur segir leikarann hafa verið hinn viðkunnalegasta og alveg lausan við alla stjörnustæla.