Göngumessa um gamla miðbæinn
Sumarmessur á Suðurnesjum í allt sumar
Sunnudagskvöldið 9. júlí var farin göngumessa um gamla miðbæinn í Keflavík en þessi ganga á sér langa sögu, þetta var í átjánda skiptið sem hún var farin, hefðin varð til þegar Keflavíkurkirkja fagnaði 90 ára vígsluafmæli árið 2005. Helgi Valdimar Biering leiddi gesti í fróðleik á milli sögureita á elsta svæði Keflavíkur og organisti Keflavíkurkirkju, Arnór Brynjar Vilbergsson, tók ukulele með og spilaði undir fjöldasöng. Þessi ganga er hluti af sumarmessum á Suðurnesjum sem fara fram á hverju sunnudagskvöldi í sumar fram að Ljósanótt.
Sr. Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur í Keflavíkurkirkju, var að sjálfsögðu með í för. „Þessi skemmtilega hefð varð til árið 2005 þegar Keflavíkurkirkja fagnaði 90 ára vígsluafmæli og hefur alltaf verið vel sótt. Í þessum ferðum er farið yfir sögu gamla miðbæjar Keflavíkur en kirkjan er samofin þeirri sögu, hún var endurbyggð árið 1902 eftir að hún eyðilagðist í óveðri og upp frá þessu varð til mikil byggð í gamla bænum sem ber mikla sögu. Annað hvort erum það við prestarnir sem segjum söguna eða fáum aðila í það, t.d. kom Hörður Gíslason í fyrra og sagði sögu Gunnars Eyjólfssonar, leikara, sem tengdist mörgum af þessum gömlu húsum. Núna fengum við Helga Valdimar Biering til að ausa úr sínum viskubrunni en hann er hafsjór af fróðleik um þennan gamla miðbæ. Síðast en ekki síst kom Arnór organisti með ukulele-ið sitt og spilaði undir fjöldasöng á milli staða, mikið sungið og svo enduðum við úti á palli heima hjá mér en ég bý á móti kirkjunni þaðan sem gangan byrjaði. Ég bauð upp á kaffi og nýbakaða hjónabandssælu úr sultu sem mamma mín gerði úr rabbabara sem Helgi Valdimar gaf mér. Ég myndi segja að þetta hafi heppnast einstaklega vel og það er gaman hversu margir mæta ár eftir ár, við vorum auðvitað mjög heppin með veðrið og svona stund verður alltaf skemmtilegri þegar sólin skín en í fyrra var mígandi rigning sem kom þó ekki að sök, fjölmargir mættu líka þá.“
Sumarmessur á Suðurnesjum
Það er ekki bara í Keflavík sem kirkjurækið fólk getur hist á sunnudagskvöldum í sumar. „Þessi göngumessa er hluti af dagskrá sem við köllum „Sumarmessur á Suðurnesjum“. Við byrjuðum á hvítasunnunni og verðum fram að Ljósanótt. Við prestarnir á Suðurnesjum höfum átt þessa samvinnu varðandi sumarmessur í níu ár en allar eiga kirkjurnar á svæðinu, sérstaka sögu hvað varðar byggingu og fólkið sem tengist þeim. Elsta kirkjan á Suðurnesjum er í Höfnum, við eigum tvær einstakar kirkjur í Hvalsnesi og Innri-Njarðvík sem eiga sér ekki neina líka og yfir höfuð getum við verið mjög stolt af kirkjunum okkar hér á svæðinu. Það er ekki bara fólk af Suðurnesjunum sem mætir í þessar messur, fólk hefur verið að koma af höfuðborgarsvæðinu svo það er greinilegt að þetta fellur vel í kramið. Við reynum alltaf að fletta tónlist inn í, t.d. ætlar sr. Elínborg Gísladóttir í Grindavík að halda göngumessu í Grindavík 13. ágúst og þá grípur Kristján Hrannar Pálsson, organisti Grindavíkurkirkju, í harmonikuna svo þá verður eflaust kátt á hjalla líka.
Það hefur verið mjög góður andi í kringum þetta og í fyrra datt mér smá grín í hug þegar kona kom til mín og spurði hvort hún fengi ekki verðlaun fyrir að hafa mætt í allar sumarmessurnar. Við tókum hana á orðinu, prentuðum aftan á dagskrána reiti fyrir stimpla sem ég keypti og lét hverja kirkju fá, svo viðkomandi fær stimpil eftir hverja messu og sá sem safnar flestum fær verðlaun í lokin,“ sagði sr. Erla í lokin.