Göngugarpar komnir heim
Starfsmenn Brunavarna Suðurnesja fengu hlýjar móttökur þegar þeir gengu í hlað á slökkvistöðinni í Reykjaensbæ um kl. 16 í dag eftir að hafa gengið hátt í 40 km leið frá Hafnarfirði á um sex tímum, í fullum galla með reykköfunartæki á bakinu til styrktar starfsbróður sínum Ara Elíassyni og fjölskyldu hans. Ari og kona hans, Eva Lind Ómarsdóttir, eignuðust í lok febrúar fallega dóttur, Lilju Líf, sem greindist með Downs heilkenni og alvarlegan hjartagalla. Þau halda brátt út til Bandaríkjanna, nánar tiltekið Boston, þar sem Lilja Líf mun gangast undir hjartaaðgerð og það vita allir sem kynnst hafa slíku að fjárhagsegur stuðningur getur skipt miklu.
Þau Ari, Eva Lind, Lilja Líf og Anton Máni, bróðir hennar tóku á móti hersingunni þegar þeir luku göngunni, en þess má geta að í fyrra voru starfsmenn BS einmitt meðal aðstandenda verkefnisins Hjólað til góðs þar sem slökkviliðsmenn og lögreglumenn af svæðinu, undir forystu Sigmundar Eyþórssonar, slökkviliðsstjóra, hjóluðu hringinn í kringum landið einmitt til að safna fé til fyrir langveik börn.
Foreldrar Lilju Lífar voru afar þakklát fyrir þetta hetjulega átak og göngumenn voru ekki síður ánægðir bæði með að vera komnir á leiðarenda og eins að hafa látið svo gott af sér leiða fyrir félaga í neyð.
Styrktarreikningurinn er hjá Sparisjóðnum í Keflavík og er tekið á móti frjálsum framlögum á eftirfarandi reikning:
1109-05-420000
Kennitala: 030773-4469
Smellið Hér til að sjá frétt um málið á VefTV Víkurfrétta