Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gönguferð um Voga
Sunnudagur 7. júlí 2019 kl. 12:00

Gönguferð um Voga

Fimmtudaginn 27. júní efndu Sögu- og minjafélagið í Vogum og Reykjanes UNESCO Global Geopark til gönguferðar í Vogum. Það voru liðlega þrjátíu manns sem mættu og tóku þátt, þrátt fyrir rigningarsudda. Ferðinni var heitið að Brekku undir Vogastapa, þar sem búið var í tæp 100 ár, fram til byrjunar 20. aldar.

Gangan hófst við Stóru-Vogaskóla, undir öruggri leiðsögn Hauks Aðalsteinssonar  Á leiðinni var m.a. staldrað við rústir Stóru-Voga, sem talið er að hafi verið fyrsta steinsteypta íbúðarhúsið sem reist var á Suðurnesjum. Áfram var haldið eftir góðum göngustíg sem umlykur byggðina í Vogum, og staldrað næst við upplýsingaskiltið um Sæmundarnef. Þar var drepið á útgerðasögu, einkum árabátaútgerð, sem var fyrirferðamikil í Vogum á öldum áður. Vogavíkin var gjarnan kölluð Gullkistan, svo fengsæl voru fiskimiðin þar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá var haldið sem leið liggur eftir fallegri svartri sandfjöru austan við Hvammsgötu. Þar í fjöruborðinu má m.a. sjá leifar af mógröfum. Þessu næst var staldrað við á s.k. Kristjánstanga, sem er innst í Vogavík. Haukur leiðsögumaður sagði þar einnig frá útgerðarsögunni, en á þessum slóðum stóðu m.a. salthús til fiskverkunar á 19. öld.

Áfram var haldið og stefnan nú tekin að Brekku undir Vogastapa. Háfjara var, sem gerði hópnum kleift að ganga á sléttum sandbotninum, í stað þess að klöngrast eftir þýfðu landslagi í brekkurótunum. Í sandinum mátti sjá litla hrauka, sem eru eftir fjörumaðka sem þarna þrífast. Maðkarnir voru fyrr á tímum tíndir og nýttir til beitu á línu. Þessu næst var komið að rústum Brekku, eins þriggja býla þar sem heilsársbúseta var undir Vogastapa.

Haukur sagði frá lífi fólksins á þessum slóðum, þegar mest var bjuggu um 30 manns á þessum stað, á þremur býlum. Gengið var um svæðið og rústir fleiri býla skoðaðar, og drepið á útgerðasögunni. Því næst var haldið til baka sömu leið, eftir vel heppnaða ferð.

Tveimur tímum eftir brottför komu göngumenn sælir og glaðir til baka að Stóru-Vogaksóla, en eilítið blautir og hraktir. Vel heppnuð ferð í alla staði, og þátttakan góð.

Ásgeir Eiríksson
bæjarstjóri Voga